Francesco Totti er goðsögn í ítalska boltanum og heimsfótboltanum þrátt fyrir að hafa aðeins unnið fjóra stóra titla á ferli sínum sem fótboltamaður.
Hann fylgist mikið með ítalska boltanum í dag en talar um ákveðið gæðaleysi þegar kemur að ítölskum leikmönnum í deildinni.
„Eins og staðan er núna er ekki mikið af hæfileikaríkum Ítölum í deildinni. Sá eini sem ég er virkilega hrifinn af er Nico Paz, þó að hann sé ekki ítalskur," segir Totti.
„Það eru fleiri lið sem geta barist um titilinn á þessu tímabili heldur en áður, þetta virðist ætla að verða meira spennandi heldur en á síðustu árum. Það eru mörg lið sem geta gert atlögu að Ítalíumeistaratitlinum."
Hann tjáði sig einnig um ítalska landsliðið sem er búið að missa af síðustu tveimur heimsmeistaramótum eftir mikil vonbrigði í undankeppnunum þar sem þjóðin tapaði umspilsleikjum gegn Svíþjóð fyrir HM 2018 og Norður-Makedóníu fyrir HM 2022.
Nú stefnir Ítalía í umspil um sæti á HM 2026 og verður það í þriðja sinn í röð sem Ítalir þurfa umspil til að komast á HM. Í þetta sinn spilar liðið undir stjórn Gennaro Gattuso, sem var landsliðsfélagi Totti í mörg ár með ítalska landsliðinu og unnu þeir HM 2006 saman.
„Ég óska Rino Gattuso og öllu landsliðinu góðs gengis í þessari undankeppni. Ég vona að þeir komi okkur aftur á HM eftir alltof langa fjarveru."
Á tíma Totti og Gattuso í ítalska landsliðinu spiluðu langflestir leikmenn landsliðsins fyrir ítölsku stórveldin, en það hefur breyst á undanförnum árum. Núna eru Ítalirnir sem leika fyrir landsliðið dreyfðir um félagslið í Evrópu og víðar.
Í landsliðshópnum sem lagði Eistland að velli um helgina voru til að mynda fimm leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni, einn úr La Liga og einn úr efstu deild í Sádi-Arabíu.
Athugasemdir