Serbneska landsliðið í fótbolta er í leit að nýjum þjálfara eftir að Dragan Stojkovic sagði upp starfi sínu eftir tap á heimavelli gegn erkifjendunum frá Albaníu. Milos Milojevic, fyrrum þjálfari Víkings R. og Breiðabliks, er meðal þeirra sem eru orðaðir við starfið.
Eftir tapið eru Serbar í slæmri stöðu í K-riðli, fjórum stigum á eftir Albaníu sem er í öðru sæti og með leik til góða.
Til þess að vinna upp þessa forystu þurfa Serbar að sigra gegn Lettlandi og Andorru auk þess að ná í að minnsta kosti stig á útivelli gegn stórveldi Englands. Þeir þurfa á sama tíma að bæta markatöluna sína til muna.
Englendingar geta tryggt sér toppsæti riðilsins og sæti á HM með sigri í Lettlandi annað kvöld.
Serbneska fótboltasambandið er núna í leit að arftaka Stojkovic, sem þjálfaði landsliðið í fjögur og hálft ár. Milos er meðal þeirra sem eru nefndir til sögunnar í serbneskum fjölmiðlum.
Milos þjálfar Sharjah FC í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en á undanförnum árum hefur hann einnig stýrt Al-Wasl í Furstadæmunum og Rauðu stjörnunni, Crvena zvezda, í Serbíu.
Milos gerði flotta hluti bæði með Al-Wasl og Rauðu stjörnunni en hann hefur einnig þjálfað Malmö, Hammarby og Mjällby í sænska boltanum á þjálfaraferlinum.
Milos er serbneskur og starfaði sem aðstoðarþjálfari Rauðu stjörnunnar í eitt og hálft ár frá 2019 til 2021. Hann er aðeins 43 ára gamall og hóf þjálfaraferilinn sinn á Íslandi.
Veljko Paunovic, Slavisa Jokanovic og Vladan Milojevic eru einnig nefndir til sögunnar sem mögulegir arftakar Stojkovic.
Paunovic er án starfs eftir að hafa verið rekinn frá spænska félaginu Real Oviedo á meaðn Jokanovic þjálfar Al-Nasr í Furstadæmunum og Milojevic er núna með Rauðu stjörnuna.
Paunovic stýrði Reading í tvö ár og hefur Jokanovic þjálfað Watford, Fulham og Sheffield United á Englandi.
Athugasemdir