Hægri bakvörðurinn Kyle Walker var lánaður frá Manchester City til AC Milan síðasta janúar og opnaði hann sig um félagaskiptin í viðtali við Sky Sports á dögunum.
Walker viðurkennir að það hafi verið sjálfselskt af sér að yfirgefa Man City á erfiðum tímapunkti.
„Ég var fyrirliði félagsins og þegar ég lít til baka þá átti ég líklega ekki að yfirgefa liðsfélagana á þessum tímapunkti. Það gekk ekki nógu vel hjá okkur og ég hefði átt að standa við bakið á liðsfélögunum sem eru góðir vinir mínir. Ég flokka suma þeirra sem part af fjölskyldunni minni," sagði Walker.
„Í fyrsta skipti á ferlinum var ég eigingjarn og tók ákvörðun sem hentaði mér á þeim tíma. Ég vildi fá að spila meiri fótbolta, mér leið ekki vel sitjandi á bekknum. Mér leið eins og ég hafði enn upp á margt að bjóða og ég vildi sanna fyrir öllum að ég gæti spilað fótbolta á hæsta gæðastigi.
„Þegar AC Milan hafði samband þá leið mér ekki eins og ég gæti hafnað þeim, ég vildi ekki vera áfram á bekknum. Ég hefði ekki átt að yfirgefa liðsfélagana en á sama tíma þá sé ég ekki eftir þessu. Ég hef alltaf viljað prófa að spila fótbolta í öðru landi."
35 ára Walker er byrjunarliðsmaður hjá nýliðum Burnley í ensku úrvalsdeildinni í dag, en liðið er aðeins komið með fjögur stig eftir sjö fyrstu umferðirnar á deildartímabilinu.
Athugasemdir