Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   fim 09. júní 2011 16:30
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hættum að "pönkast" á dómurum!
Knattspyrnan í 100 ár - á vellinum með Sigmundi Ó. Steinarssyni
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
<b>Mynd úr safni 100 ára sögu Íslandsmótsins.<br></b> Dómaratríó á gamla Melavellinum - fyrir leik Fram og Víkings 1959. Guðjón Einarsson, ljósmyndari, Val, Grétar Norðfjörð Þrótti, formaður KDR, og Björn Karlsson, Þrótti.
Mynd úr safni 100 ára sögu Íslandsmótsins.
Dómaratríó á gamla Melavellinum - fyrir leik Fram og Víkings 1959. Guðjón Einarsson, ljósmyndari, Val, Grétar Norðfjörð Þrótti, formaður KDR, og Björn Karlsson, Þrótti.
Mynd: Aðsend
ÞAÐ er ljóst að knattspyrnustemning mun ekki hefjast á Íslandi fyrr en í 8. umferð, eða eftir fríið sem verður á 100 Íslandsmótinu, Pepsí-deildinni, vegna þátttöku ungmennalandsliðs Íslands í EM í Danmörku 11. til 25. júní.

Veðurfar hefur ekki verið til að lífga upp á knattspyrnuna - hitastigið ekki verið hátt og nokkrir leikir hafa farið fram í roki og við slæmar aðstæður. Fresta varð leik vegna snjókomu og einn leikur fór fram innandyra. Vellir eru ekki góðir og aðstæður ekki sem bestar fyrir leikmenn og áhorfendur. Það má því segja að sumarstemningin sé ekki komin. Þannig ástand hefur verið áður - knattspyrnan hefur nokkrum sinnum farið rólega af stað við slæmar aðstæður. Knattspyrnumenn hafa þá verið eins og vorlaukarnir - seinir að springa út.

Það má því segja að knattspyrnumenn og knattspyrnuunnendur séu enn að bíða eftir sumarhitanum. Menn eru hálf "loftlausir" eins og knettirnir fimm sem þurfti að skipta út í byrjun landsleiks Íslands og Danmerkur á Laugardalsvellinum. Þeir voru ekki tilbúnir í "slaginn" - þoldu illa kuldann og síðan fór allt loft úr landsliðsmönnum Íslands, eins og boltunum, þegar á leikinn leið.

Það eru Eyjamenn sem hafa verið hvað sprækastir í byrjun Íslandsmótsins, sem verður án efa spennandi á lokasprettinum eins og sl. keppnistímabil. Ég hef trú á því að fjögur lið komi til með að berjast harðri baráttu um meistaratitilinn - meistarar Breiðabliks, FH-ingar, Eyjamenn, sem börðust fram í síðustu umferð í fyrra og þá koma KR-ingar til með að veita þeim harða keppni.

Hitastigið á knattspyrnuvöllunum hefur verið einna mest þegar þjálfarar hafa náð sér "æsa sig upp" vegna dómara. Það er gömul saga og ný, að dómarar hafa oft orðið fyrir barðinu á áhorfendum, leikmönnum og þjálfurum er leitað er eftir sökudólgi.

Þegar ég hóf að viða að mér efni og safna upplýsingum er ég hóf að skrifa 100 ára sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu - fyrra bindið, 1912-1965, sem kom út á dögunum, kom í ljós að dómarar voru oft skotspónn áhorfenda. Ráðist var á dómara og línuverði á árum áður, eins og kemur fram í bókinni - lagt var hendur á þá og þurftu þeir oft að fá lögregluvernd til að komast af leikvelli og heim til sín.

Þess má geta að 1939 neituðu erlendir þjálfarar sem störfuðu hér á landi að dæma leiki á Íslandsmóti, eins og fyrirhugað var. Englendingurinn Joe Deviine, sem þjálfaði Val, neitaði að dæma. Hvers vegna? "Það er einfalt mál. Ég kæri mig ekki um að verða fyrir aðkasti á meðan ég starfa hér. Íslendingar þurfa að taka meira tillit til dómara. Vitanlega getur dómara yfirsést eins og öðrum, en fólk verður að gæta þess, að hann hefur ávallt á réttu að standa."
Sagt er frá þessu í bókinni og einnig að dómari hafi fengið lögregluvernd eftir kappleik Víkings og KR sama ár.

Dómara hótað lífláti

Þá er sagt frá því að 1956 gerðist það að Þorlákur Þórðarson, dómari úr Víkingi, neitaði að flauta á seinni hálfleikinn í leik KR og ÍBA fyrr en búið væri að fjarlægja tvo menn, sem höfðu staðið fyrir hrópum og hótuðu Þórláki meðal annars lífláti.

Ég segi frá mörgum sögum sem viðkoma dómurum. Þær eru ekki allar um hótanir um líflát. Eitt sinn óskaði maður nokkur eftir því við dómara, að hann bannaði Helga Daníelssyni, markverði ÍA, að syngja í leik. Helgi var frægur fyrir að syngja í markinu er allt gekk í haginn hjá honum.

Dómarar, eins og leikmenn, mæta til leiks, til að gera sitt besta - þeir eru misjafnlega upplagðir eins og leikmenn og þjálfarar. Dómarar sjá ekki og skynja ekki nema stuttan sjóndeildarhring, eins og aðrir sem taka þátt í leiknum. Það er ekki hægt að ætlast til að þeir hafi víðari sjóndeildarhring en aðrir - geti jafnvel horft í gegnum holt og hæðir.

Hér á árum áður þá fengu leikmenn og þjálfarar ekki tækifæri til að "pönkast" á dómurum opinberlega. Ástæðan var einfaldlega sú, að þá voru þjálfarar og leikmenn ekki kallaðir í viðtöl við ljósvakamiðla strax eftir leiki og það var lítið um viðtöl við menn í blöðum. Ef að viðtöl voru tekin, snérust þau um allt annað en dómarann.

Það hefur lengi verið lenska að ráðast að dómurum þegar illa gengur - og menn hafa komist upp með það að ráðast að þeim.

Hvað yrði sagt, ef dómari tæki sig til og hraunaði yfir þjálfara, sem stjórnuðu liði, sem væri ekki heil brú í hvað það væri að gera? Eða að hann tæki fyrir leikmenn, sem stæðu sig illa?

Fréttamenn eiga ekki að koma þjálfurum eða öðrum upp með að ráðast á starfsmenn knattspyrnuleikja í tíma og ótíma.

Það verður að taka á þessum málum áður en út í óefni er komið. Aganefnd KSÍ verður að skerast í leikinn og setja menn í bann, sem "pönkast" stöðugt á dómurum og særa þá. Það verður að óska eftir því að þjálfarar haldi sig á mottunni og óska eftir því að þeir sýni öðrum þátttakendum knattspyrnunnar virðingu í starfi og leik.

Það er alvarlegt þegar lítið er gert úr dómurum sem leikmennirnir sjálfir og þjálfarar velja besta dómarann. Um leið er verið að segja að leikmenn og þjálfarar hafi ekkert vit á leiknum.


Hættum að "pönskast" á dómurum, eða öðrum sem taka þátt í hinum skemmtilega leik, sem knattspyrnan er. Sýnum knattspyrnunni þá virðingu í framtíðinni.

Það verður aldrei hægt að koma í veg fyrir að það sér hrópað á dómarar, leikmenn og þjálfara í leik - þau hróp hafa verið og verða alltaf hluti af leiknum. Það er aftur á móti ekki í lagi þegar menn komast upp með að meiða þátttakendur í viðtölum í fjölmiðlum. Öll gagnrýni er góð, en hún þarf að vera yfirveguð, málefnaleg og án fúkyrða.

Svona í lokin, þá er hér stutt frásögn úr bókinni 100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu, er vitnað er í umfjöllun í Morgunblaðinu um dómara, sem dæmdi leik Fram og KR 1917.

Lokakaflanum var lýst þannig - er KR-ingar reyndu allt sem þeir gátu til að jafna metin í stöðunni, 4:3. "Allt leyfilegt og mér er næst að segja óleyfilegt líka, því dómarinn sá aldrei meira en hann endilega þurfti að sjá, en það kom fyrir ekki, því að Clausen og Pétur Sigurðsson voru allstaðar fyrir."

Upp með léttleikann,
Sigmundur Ó. Steinarsson.
banner
banner