Guðmundur Magnússon átti góðan leik í 4-0 sigri Víkings Ólafsvík gegn Þrótti í 1. deildinni í dag, en hann lagði meðal annars upp mark og olli vörn Þróttara sífelldum vandræðum. Hann var virkilega ánægður með sigurinn.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 0 - 4 Víkingur Ó.
„Við vorum hrikalega flottir, þetta var þvílíkur baráttuandi að klára þetta 4-0 á útivelli,“ sagði Guðmundur við Fótbolta.net.
Guðmundur er uppalinn Framari en skipti yfir til Víkinga í sumar. Framarar og Þróttarar hafa lengi verið erkifjendur og viðurkennir Guðmundur að það hafi gert sigurinn extra sætan.
„Já, sérstaklega þar sem við (Fram) duttum út í bikarnum gegn þeim fyrr í sumar, þannig að þetta var extra sætt,“ sagði Guðmundur.
Guðmundur vill meina að Víkingar séu enn í baráttunni um eina lausa sætið í Pepsi deildinni þó að bæði Selfoss og Haukar hafi unnið sigra í kvöld.
„Jú jú, ég meina af hverju ekki. Við eigum Selfoss í næsta leik og ef við vinnum þá eigum við góðan séns. Svo eigum við BÍ, þannig að það er nóg af leikjum eftir og fínt að klára þetta í kvöld,“ sagði Guðmundur við Fótbolta.net.