Úlfar Hrafn Pálsson var maður leiksins þegar Haukar unnu góðan 3-0 sigur gegn Leikni á Ásvöllum. Hann skoraði tvö mörk og lagði upp það þriðja og átti í heild mjög góðan leik. Hann var sáttur með stigin þrjú.
Lestu um leikinn: Haukar 3 - 0 Leiknir R.
„Þetta var mjög gott og við erum að reyna að klára þessa leiki sem við eigum eftir, það er allavega markmiðið,“ sagði Úlfar við Fótbolta.net.
„Þetta byrjaði frekar lélega hjá okkur en við náðum að vinna okkur hægt og hægt inn í leikinn og þetta kom betur í seinni hálfleik.“
Líkt og áður kom fram skoraði Úlfar tvö mörk en Hilmar Rafn Emilsson, sem hefur nú verið aðalmarkaskorari Hauka, klúðraði nokkrum dauðafærum.
„Maggi er búinn að vera að kvarta yfir því að það sé enginn markaskorari í liðinu nema Hilmar Emils þannig að ég sýndi honum bara hvernig á að gera þetta. Það hefði samt verið fínt að setja eina þrennu í sumar.“