,,Í dag var hlaupið yfir okkur og við vorum ekki tilbúnir í þessa baráttu sem þarf að vera á móti Skagamönnum," sagði Logi Ólafsson þjálfari Selfoss eftir 4-0 tap á Akranesi í kvöld.
Lestu um leikinn: ÍA 4 - 0 Selfoss
,,Þetta þekkja menn frá í fyrra þegar við lékum á móti þeim og það var kyrfilega bent á þetta fyrir leikinn að menn fengju engan frið. Ef við ætlum að vinna fótboltaleik þá verður baráttan að vera að minnsta kosti til jafns við þá sem við erum að spila við og það var ekki í dag."
Hollendingurinn Bernard Petrus Brons lék sinn fyrsta leik með Selfoss í dag eftir að hafa fengið leikheimild þegar glugginn opnaði í gær.
,,Hann er ágætis varnaramaður og sterkur í loftinu. Það er allt í lagi með hann en hinsvegar er það þannig að hann er búinn að æfa með okkur í einhverja tvo daga og 2-3 æfingar. Við getum ekki hengt hann fyrir þetta."
,,Við höfum orðið fyrir áföllum með okkar leikmannahóp hvað varðar meiðsli, hrein og bein meiðsli. Nú síðast þarf Babacarr Sarr að fara af velli í fyrri hálfleik. Við þolum ekki svona mikil skakkaföll akkúrat á þessum stað í liðinu. Að menn sem spila stórt hlutverk í varnarleik liðsins skuli detta svona út. Menn sem eru ekki í eins mikilli æfingu þurfa að koma inn og það er ekki alveg nógu gott."
Nánar er rætt við Loga í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir