Haukur Lárusson, miðvörður Fjölnis, var besti maður vallarins í kvöld þegar Grafarvogsliðið vann mikilvægan 2-1 sigur á Leikni. Haukur skoraði fyrra mark Fjölnis og át alla bolta í loftinu.
Fjölnismenn eru í harðri toppbaráttu og segir Haukur að liðið stefni upp.
Fjölnismenn eru í harðri toppbaráttu og segir Haukur að liðið stefni upp.
Lestu um leikinn: Fjölnir 2 - 1 Leiknir R.
„Það er garanterað þegar tveir rauðhærðir menn skora að það sé sigur," sagði Haukur eftir leikinn en sigurmarkið skoraði Guðmundur Karl Guðmundsson með draumaskoti.
„Mér fannst mitt mark reyndar fallegra en hans. Hverjum þykir sinn fugl fagur. Það var allavega álit manna að mitt hafi verið fallegra," sagði Haukur kíminn. Hann var ánægður með aðstæðurnar en völlurinn var rennblautur og það rigndi vel.
„Þetta eru skemmtilegustu aðstæðurnar. Boltinn fékk að fljóta. Við viljum halda boltanum niðri en duttum í panikk í seinni hálfleik og byrjuðum að sparka boltanum frá okkur. Menn urðu þar með þreyttir en þetta var frábær vinnusigur."
„Við ætlum okkur upp og vonumst til þess að liðin fyrir ofan okkur misstigi sig. Löngunin er ótrúleg að fara þarna upp. Við erum ekki að troða inn mikið af mönnum og trúum því að við förum upp."
Haukur tók sér frí frá alvöru fótbolta í fyrra þegar hann lék í sjö manna utandeildinni. Hann saknar þó ekki utandeildarinnar.
„Nei, það er miklu skemmtilegra að vera hérna. Ég var meiddur og ákvað að prófa þessa Carlsberg-deild. Meðan nárinn hélt þar hugsaði ég „Hann heldur örugglega hér" og þetta hefur gengið frábærlega."
Viðtalið má sjá í heild sinni í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir