Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
banner
   sun 07. júní 2015 15:15
Arnar Daði Arnarsson
Kristján Jóns spáir í leiki sjöundu umferðar
Kristján ræðir við ónafngreindan drykkjumann á Ölveri.
Kristján ræðir við ónafngreindan drykkjumann á Ölveri.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Skorar Andrés sigur mark Fylkis á Skaganum?
Skorar Andrés sigur mark Fylkis á Skaganum?
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fær Stjarnan tækifæri til að fagna á móti Fjölni?
Fær Stjarnan tækifæri til að fagna á móti Fjölni?
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Heil umferð fer fram í sjöundu umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Sjónvarpsleikur umferðarinnar er leikur Víkings og FH sem fram fer í Víkinni.

Í Keflavík er alvöru botnbaráttuslagur þegar Keflavík og ÍBV mætast. Keflvíkingar með nýju menn í brúnni með eitt stig í deildinni. Það verður síðan hörkuslagur á Vodafonevellinum þegar Reykjavíkurliðin, Valur og KR mætast.

Kristján Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu spáir fyrir um leikina í umferðinni. Árni Vilhjálmsson spáði í síðustu umferð og gerði sér lítið fyrir og spáði fimm leikjum réttum af sex. Þar af var hann með hárrétta markatölu í leik Breiðabliks og Stjörnunnar. Það er því pressa á Kristjáni í þessari umferð.

Keflavík 1 - 1 ÍBV (sunnudag 17:00)
Þessi leikur virkilega snúinn. Bæði liðin hafa byrjað illa í deildinni. ÍBV hefur þó sýnt batamerki og biðinni eftir fyrsta sigrinum er lokið. Ekki auðveldar það manni að lesa í leikinn að Keflavík var að skipta um þjálfara. Slíkt getur haft ágæt áhrif á leikmannahópinn í næsta leik á eftir en spurning er hvort Jóhann og Haukur geri miklar breytingar eða ekki í fyrsta leik. Ég skýt bara á jafntefli. Sigurbergur og Glenn skora mörkin.

Leiknir 1 - 2 Breiðablik (sunnudag 19:15)
Þessi er nokkuð áhugaverður. Blikarnir eru eina taplausa liðið og hafa verið mjög sannfærandi undanfarið. Maður er enn að reyna að lesa í hvort Breiðhyltingar nái að gera heimavöllinn að vígi í efstu deild. Þeir hafa bara spilað tvo leiki þar, einn sigur og eitt tap. Ég reikna því frekar með sigri Blika. Atli skorar fyrir Leikni en Höskuldur og Ellert fyrir Blika.

ÍA 0 - 1 Fylkir (sunnudag 19:15)
Skagamenn virðast mega illa við því að missa Garðar Gunnlaugs úr sókninni. Ég held að þessi leikur verði stöðubarátta og ekki mjög fjörugur. Andrés skorar eina markið.

Valur 0 - 2 KR (sunnudag 19:15)
Maður veit ekki við hverju maður á að búast af Valsliðinu. Þeir hafa náð frábærum sigrum gegn FH og Fylki en samt er stigasöfnunin ekkert sérstaklega mikil á heildina litið. KR-ingar eru býsna sannfærandi en Bjarni og Gummi hafa strax náð tökum á liðinu þrátt fyrir miklar breytingar. Ég reikna með 0:2 sigri KR þar sem Þorsteinn og Sören skora mörkin.

Stjarnan 1 - 0 Fjölnir (sunnudag 19:15)
Ég hef trú á því að meistararnir hristi af sér það slen sem verið hefur yfir liðinu undanfarið og þetta verður þá fyrsti sigur liðsins í venjulegum leiktíma í langan tíma. Það er ekki auðvelt að spila á móti Fjölni. Liðið er vel skipulagt og menn þekkja sín hlutverk vel. Stjarnan mun halda hreinu og það ræður úrslitum. Veigar skorar markið og stimplar sig inn í sumarið.

Víkingur 0 - 2 FH (sunnudag 20:00)
Þessi leikur kemur ekki á góðum tímapunkti fyrir Víkinga. Þeim tókst ekki að vinna Hött á 90 mínútum á heimavelli í bikarnum og hafa gefið aðeins eftir eftir ágæta byrjun. FH nær í þessi stig. Þeir skora snemma og bæta við öðru seint í leiknum þegar Víkingar taka meiri áhættu. Atli Viðar og Lennon skora.

Fyrri spámenn:
Árni Vilhjálmsson (5 réttir)
Kristján Gauti Emilsson (3 réttir)
Kolbeinn Tumi Daðason (3 réttir)
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson (3 réttir)
Jóhann Ólafur Sigurðsson (3 réttir)
Egill Ploder Ottósson (2 réttir)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner