Heimir, þú baðst liðið um að fara að spila fótbolta í fyrri hálfleik og það gekk nú ágætlega í dag? „Það gekk mjög vel. Mér fannst við mjög góðir í fyrri hálfleik bæði varnarlega og sóknarlega," svaraði Heimir Guðjónsson þjálfari FH eftir 2 - 2 jafntefli við Val í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 2 - 2 FH
Heimir var með ákall í viðtali eftir síðasta leik gegn KR að FH-liðið færi að spila fótbolta í fyrri hálfleik en ekki byrja bara í hálfleik eins og hefur gerst oft í sumar.
„Við spiluðum góðan bolta, leystum pressuna þeirra með stuttum og lengri sendingum og náðum að færa boltann. Við vorum með línuna hátt og þéttir. Þetta var heilt yfir mjög góður fyrri hálfleikur fyrir utan að við misstum aðeins einbeitinguna í hornspyrnunni. Við sköpuðum mjög góð færi og vorum heilt yfir mjög góðir í þessum leik. Þess vegna voru vonbrigði að við skyldum ekki fá meira út úr honum."
Þessi breyting að ná liðinu í gang strax í byrjun leiks núna, er það huglægt eða taktískt? Hverju breyttirðu?
„Við töluðum um það í vikunni að við þurfum að byrja leikina betur. Við gerðum það í dag og þá lærum við af því og mætum klárir næst líka. Þó við höfum verið mjög góðir í fyrri hálfleik þá vorum við líka góðir í seinni hálfleik. Heilt yfir fín frammistaða og vonbrigði að fá ekki meira út úr leiknum."
Þetta var þriðji leikur FH í röð í deildinni án sigurs; gegn Víkingi, KR og svo Val í kvöld. Eru þetta ekki bara sterkari lið en FH?
„Ég veit það nú ekki, Víkingur er besta lið landsins, KR-liðið er ekki sterkara en við þessa stundina og við hljótum að vilja mæla okkur við þessi lið. Okkur tókst það í kvöld."
Athugasemdir