
Harpa Þorsteinsdóttir, framherji Stjörnunnar í Pepsi-deild kvenna, var ánægð með sigur liðsins á Blikum í kvöld, en Stjarnan er nú með átta stiga forskot á toppnum.
Lestu um leikinn: Breiðablik 1 - 2 Stjarnan
,,Jú þetta var mjög góður sigur, sterkur sigur í dag og þetta var mjög erfitt að koma hingað, við vissum að þær voru búnar að peppa sig vel fyrir þennan leik og voru með miklar yfirlýsingar og ég er glöð að við stóðumst pressuna, héldum okkar skipulagi og náðum sigri í dag," sagði Harpa.
Harpa fékk að líta beint rautt spjald á 66. mínútu, en hún og Mist Elíasdóttir voru að kljást mikið í leiknum og fékk Harpa rautt fyrir að sparka Mist niður.
,,Hún fíflaði mig útaf, hún var búin að sparka ofan á ristina á mér í föstum leikatriðum þegar dómarinn sá ekki til. Ég missi stjórn á skapinu mínu í augnablik og línuvörðurinn sá bara það augnablik sem var mjög leiðinlegt fyrir mig. Ég danglaði löppinni, ég ætlaði aldrei að meiða hana þetta var í pirringi."
,,Þetta var mjög barnalegt af mér og ég biðst afsökunar fyrir að hafa látið svona."
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir