Baleba fer ekki til Man Utd í sumar - Newcastle enn í framherjaleit - Ederson til Galatasaray?
   lau 16. ágúst 2025 21:45
Ívan Guðjón Baldursson
Tyrkland: Vonbrigði fyrir Fenerbahce - Logi var frábær
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru þrír leikir fram í tyrkneska boltanum í kvöld þar sem stjörnum prýtt lið Fenerbahce gerði markalaust jafntefli við Göztepe.

Jhon Durán, Youssef En-Nesyri og Milan Skriniar voru meðal byrjunarliðsmanna Fenerbahce, sem leikur undir stjórn José Mourinho, en þeim tókst ekki að skora.

Anderson Talisca kom inn af bekknum í seinni hálfleik og fékk besta færi leiksins í uppbótartíma, en hann klúðraði af vítapunktinum svo lokatölur urðu 0-0.

Þetta var fyrsti leikur Fenerbahce á deildartímabilinu en Logi Tómasson og félagar í Samsunspor mættu einnig til leiks í kvöld og voru að spila sinn annan leik í deildinni.

Logi stóð sig mjög vel í vinstri bakvarðarstöðunni er Samsunspor lagði tíu leikmenn Kocaelispor á útivelli.

Logi var meðal bestu leikmanna vallarins þar sem hann skapaði tvö góð færi. Hann er í gríðarlega góðu formi og hefur skilað frábærum hlaupatölum á upphafi tímabils.

Þrátt fyrir flottan leik hjá Loga voru Samsunspor heppnir að fara með sigur af hólmi. Andstæðingarnir í liði Kocaelispor urðu sterkari aðilinn eftir að hafa misst leikmann af velli en tókst ekki að skora.

Göztepe 0 - 0 Fenerbahce
0-0 Anderson Talisca, misnotað víti ('92)

Kocaelispor 0 - 1 Samsunspor
0-1 A. Jovanovic ('82, sjálfsmark)
Rautt spjald: S. Yalcin, Kocaelispor ('44)
Athugasemdir
banner