Eze, Rabiot, Dyche, Howe og miðjumannsleit Liverpool í slúðurpakka dagsins
   sun 01. september 2024 19:10
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Benoný með þrennu í sigri á ÍA - Stjörnumenn unnu FH-inga
Benoný Breki Andrésson skoraði þrennu á rúmum tuttugu mínútum
Benoný Breki Andrésson skoraði þrennu á rúmum tuttugu mínútum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Jónsson er kominn með sextán deildarmörk
Viktor Jónsson er kominn með sextán deildarmörk
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Valur Ómarsson skoraði í sigri Stjörnunnar á FH
Óli Valur Ómarsson skoraði í sigri Stjörnunnar á FH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benoný Breki Andrésson átti stórleik í liði KR sem vann ÍA, 4-2, í erkifjendaslag á KR-vellinum í Bestu deild karla í dag. Stjarnan vann á meðan 3-0 sigur á FH í Kaplakrika.

Það var líf og fjör á KR-vellinum. Skagamenn byrjuðu leikinn betur og komust í forystu strax á 10. mínútu er Hinrik Harðarson setti boltann framhjá Guy Smit eftir góða sókn.

Benoný Breka-sýningin hófst skömmu eftir það. Hann jafnaði tveimur mínútum eftir mark Skagamanna, en Johannes Vall hreinsaði boltanum á Ástbjörn Þórðarson sem skilaði honum á Benoný og þaðan í markið.

Hann var aftur á ferðinni á 28. mínútu og aftur var varnarleikur Skagamanna í molum. Atli SIgurjónsson fann Luke Rae sem framlengdi á Benoný sem skoraði nokkuð örugglega.

Þrennan var síðan fullkomnuð sjö mínútum síðar eftir sendingu Arons Sigurðarsonar. Sóknarleikur KR-ingar stórglæsilegur í leiknum og hefði liðið hæglega getað skorað fleiri.

Í síðari hálfleiknum náðu Skagamenn að minnka muninn en þar var að verki Viktor Jónsson með 16. deildarmark sitt á tímabilinu og er hann heldur betur farinn að ógna markametinu. Viktor skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Steinars Þorsteinssonar.

Skagamenn sóttu án afláts síðustu fimmtán mínúturnar og eiginlega ótrúlegt að liðið hafi ekki náð í stig úr leiknum. Þeir voru farnir að henda mönnum framar á völlinn og fengu fyrir vikið mark í bakið.

Haukur Andri Haraldsson átti misheppnaða sendingu sem Finnur Tómas Pálmason komst fyrir. Hann kom honum inn á Luke Rae sem gulltryggði sigur KR. Lokatölur 4-2.

KR-ingar eru í 9. sæti með 21 stig en ÍA í 5. sæti með 31 stig.

Stjörnumenn unnu FH-inga

Stjarnan vann 3-0 sigur á FH í Kaplakrika en úrslit leiksins gáfu ekki alveg rétta mynd af leiknum.

FH-ingar voru töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleiknum og sköpuðu sér urmul af færum en boltinn einfaldlega vildi ekki inn. Í síðari hálfleiknum var þeim refsað herfilega fyrir að klúðra færunum.

Óli Valur Ómarsson kom Stjörnunni yfir á 62. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. Hann tók skot af löngu færi og fór boltinn alveg út við stöng og inn.

Guðmundur Baldvin Nökkvason tvöfaldaði forystuna á 79. mínútu eftir slæma sendingu Ísaks Óla Ólafssonar úr vörn FH. Guðmundur lagði boltann fyrir sig og smellti honum í samskeytin.

Í uppbótartíma gerði Emil Atlason endanlega út um leikinn. FH-ingar misstu boltann og var það Adolf Daði Birgisson sem fann Emil í teignum sem gerði tíunda deildarmark sitt á tímabilinu.

FH-ingar eru í 4. sæti deildarinnar með 32 stig en Stjarnan í 6. sæti með 31 stig.

KR 4 - 2 ÍA
0-1 Hinrik Harðarson ('10 )
1-1 Benoný Breki Andrésson ('12 )
2-1 Benoný Breki Andrésson ('28 )
3-1 Benoný Breki Andrésson ('35 )
3-2 Viktor Jónsson ('62 )
4-2 Luke Morgan Conrad Rae ('94 )
Lestu um leikinn

FH 0 - 3 Stjarnan
0-1 Óli Valur Ómarsson ('61 )
0-2 Guðmundur Baldvin Nökkvason ('79 )
0-3 Emil Atlason ('96 )
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner