Íslands- og bikarmeistarar Víkings unnu ótrúlegan 3-2 endurkomusigur á Val í 20. umferð Bestu deildar karla í Víkinni í kvöld. Tvö rauð spjöld fóru á loft og þá voru tvö sjálfsmörk skoruð í þessum stórleik umferðarinnar. Þá er ljóst hvaða lið verða í efri hlutanum fyrir seinni hluta mótsins eftir að Fram tapaði fyrir HK, 1-0, í Kórnum.
Leikurinn Víkings og Vals fór nokkuð rólega af stað. Bæði lið voru að þreifa fyrir sér en engin dauðafæri fyrstu mínúturnar.
Patrick Pedersen komst nálægt því að koma Val í forystu er hann fékk boltann inn fyrir, framhjá Ingvari Jónssyni í markinu, en danski sóknarmaðurinn missti boltann aðeins of langt frá sér og náði því ekki að gera sér mat úr færinu.
Það dró til tíðinda mínútu síðar. Aron Elís Þrándarson, sem var á gulu spjaldi, fór í hressilega tæklingu á Bjarna Mark Antonssyni og fékk fyrir það sitt annað gula og þar með sendur í sturtu.
Valur nýtti sér liðsmuninn með því að taka forystuna á 25. mínútu leiksins. Aron Jóhannsson kom fyrirgjöf inn í teiginn og á Pedersen sem setti boltann í stöng en Gylfi Þór Sigurðsson var mættur í frákastið og skoraði.
Valsmenn sóttu og sóttu og vildu fá tvö víti á stuttum tíma. Fyrst féll Pedersen í teignum og boltanum hreinsað í horn en eftir hornið virtist boltinn síðan fara í höndina á leikmanni Víkings en ekkert dæmt.
Gestirnir létu það ekki fara í taugarnar á sér og skoruðu þeir annað markið nokkrum mínútum síðar. Bjarni Mark fór auðveldlega framhjá Karli Friðleifi Gunnarssyni áður en hann kom boltanum fyrir en það vildi ekki betur en svo að boltinn fór af Tarik Ibrahimagic og í eigið net.
Staðan 2-0 fyrir Val í hálfleik en það átti eftir að færast meira fjör í leikinn í þeim síðari.
Þegar tæpur hálftími var til leiksloka var jafnt í liðum. Hólmar Örn Eyjólfsson fékk að líta beint rautt spjald fyrir að fara harklega í Danijel Dejan Djuric.
Víkingar tóku aukaspyrnu fyrir markið og var það Helgi Guðjónsson sem skallaði í átt að marki og var það Aron Jóhannsson sem setti hann í eigið net. Mikilvægt mark fyrir Víkinga.
Sjö mínútum síðar jafnaði Ibrahimagic metin með góðum skalla eftir fyrirgjöf frá Danijel Djuric áður en Ari Sigurpálsson gerði sigurmarkið átta mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.
Valdimar Þór Ingimundarson keyrði með boltann upp, fann Karl Friðleif hægra megin sem kom boltanum fyrir Ara sem skoraði með góðu skoti. Endurkoman staðfest.
Sex mínútum var bætt við venjulegan leiktíma en Valsmenn náðu ekki gera sér mat úr uppbótartímanum og lokatölur 3-2 fyrir Víking sem er með 43 stig í öðru sæti, þremur á eftir toppliði Breiðabliks, en Víkingar eiga leik til góða og geta því endurheimt toppsætið. Valur er á meðan í 3. sæti með 35 stig og er að skrá sig úr titilbaráttunni.
HK spyrnti sér frá botninum og Fram missti af sæti í efri hlutann
HK vann óvæntan, 1-0, sigur á Fram í Kórnum í kvöld.
Framarar voru betri aðilinn í fyrri hálfleiknum og vantaði ekki færin til að taka forystuna.
Alex Freyr Elísson kom sér í dauðafæri á 8. mínútu eftir frábæra fyrirgjöf Haralds Einars Ásgrímssonar en Alex náði ekki að koma boltanum á markið.
Undir lok hálfleiksins fengu Framarar vítaspyrnu er Kennie Chopart skaut boltanum í höndina á Þorsteini Aroni Antonssyni.
Fred Saraiva tók spyrnuna en danski markvörðurinn Christoffer Petersen las hann strax og varði spyrnuna örugglega.
Það kom aðeins meiri kraftur í HK í síðari hálfleik og þegar tíu mínútur voru liðnar átti Eiður Gauti Sæbjörnsson skalla sem var á leið í netið en Guðmundur Magnússon kom Fram til bjargar.
Fimm mínútum fyrir leikslok fengu Framarar blauta tusku í andlitið er Þorsteinn Aron gerði sigurmark HK með góðum skalla eftir fyrirgjöf Dags Arnar Fjeldsted.
Baráttusigur HK-inga sem eru komnir upp úr fallsæti og í 10. sæti með 20 stig en Fram í 8. sæti með 26 stig.
Nú liggur fyrir hvaða sex lið verða í efri hlutanum fyrir umspilið, en það eru Breiðablik, Víkingur, Valur, FH, ÍA og Stjarnan.
Úrslit og markaskorarar:
Víkingur R. 3 - 2 Valur
0-1 Gylfi Þór Sigurðsson ('25 )
0-2 Tarik Ibrahimagic ('33 , sjálfsmark)
1-2 Aron Jóhannsson ('66 , sjálfsmark)
2-2 Tarik Ibrahimagic ('73 )
3-2 Ari Sigurpálsson ('82 )
Rautt spjald: ,Aron Elís Þrándarson , Víkingur R. ('21)Hólmar Örn Eyjólfsson, Valur ('65) Lestu um leikinn
HK 1 - 0 Fram
0-0 Frederico Bello Saraiva ('45 , misnotað víti)
1-0 Þorsteinn Aron Antonsson ('85 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 22 | 15 | 4 | 3 | 56 - 23 | +33 | 49 |
2. Breiðablik | 22 | 15 | 4 | 3 | 53 - 28 | +25 | 49 |
3. Valur | 22 | 11 | 5 | 6 | 53 - 33 | +20 | 38 |
4. ÍA | 22 | 10 | 4 | 8 | 41 - 31 | +10 | 34 |
5. Stjarnan | 22 | 10 | 4 | 8 | 40 - 35 | +5 | 34 |
6. FH | 22 | 9 | 6 | 7 | 39 - 38 | +1 | 33 |
7. Fram | 22 | 7 | 6 | 9 | 31 - 32 | -1 | 27 |
8. KA | 22 | 7 | 6 | 9 | 32 - 38 | -6 | 27 |
9. KR | 22 | 5 | 6 | 11 | 35 - 46 | -11 | 21 |
10. HK | 22 | 6 | 2 | 14 | 26 - 56 | -30 | 20 |
11. Vestri | 22 | 4 | 6 | 12 | 22 - 43 | -21 | 18 |
12. Fylkir | 22 | 4 | 5 | 13 | 26 - 51 | -25 | 17 |
Athugasemdir