City hefur sett verðmiða á McAtee - Real til í að bíða eftir Konate og hefur áhuga á Saliba
   þri 01. október 2013 17:30
Magnús Már Einarsson
Máni ekki áfram hjá Keflavík
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Máni Pétursson mun ekki halda áfram sem aðstoðarþjálfari hjá Keflavík. Máni kom til starfa um mitt sumar þegar Kristján Guðmundsson tók við en hann getur ekki haldið áfram í þjálfun vegna mikilla anna á öðrum vígstöðum.

,Þetta er of mikið álag á fólkið í kringum mig. Ég er að reka umboðsskrifstofu og fjölmiðlasamsteypuna Harmageddon. Ég fékk að fara í þetta ævintýri fyrir einstaka þolinmæði vinnufélaga míns en ég hef ekki tíma í að halda áfram," sagði Máni við Fótbolta.net í dag.

,,Þessi tími var stórkostlegur og ég á eftir að sakna þess að þjálfa þessa drengi, þetta eru miklir fagmenn. Fólkið í Keflavík er eitt það alskemmtilegasta og frábærasta fólk sem ég hef kynnst á ævinni."

,,Ég myndi ekki hugsa mig tvisvar um að halda áfram ef ég hefði tök á því. Ef ég kæmi eitthvað nálægt þjálfun næsta sumar þá eru allar líkur á því að það yrði í Keflavík."


Máni var virkilega ánægður með samstarfið við Kristján Guðmundsson þjálfara Keflavíkur.

,,Ég hef sjaldan séð aðra eins fagmennsku hjá einum þjálfara. Ef að Keflavík heldur leikmannahópi sínum og Kristjáni þá er ekki langt í að liðið verði komið þangað sem það á heima, í toppbaráttu í Pepsi-deildinni. Í síðustu 7-8 leikjunum tróðu sokk upp í alla þá sem sögðu að þetta væri lélegur leikmannahópur."

Máni segist ætla að styðja Keflvíkinga sem og sína menn í Stjörnunni næsta sumar. ,,Ég styð Keflavík og Stjörnuna. Ég verð í stúkunni með Má (Gunnarssyni) að styðja Keflavík en ég verð heima þegar Stjarnan og Keflavík mætast," sagði Máni.
Athugasemdir
banner