Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 01. október 2021 09:21
Elvar Geir Magnússon
Alexander og Albert gera nýja samninga við Fram
Alexander Már Þorláksson.
Alexander Már Þorláksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skagamennirnir Alexander Már Þorláksson og Albert Hafsteinsson hafa skrifað undir nýja samninga við Fram en liðið komst í sumar upp í efstu deild með því að vinna Lengjudeildina með stórkostlegum yfirburðum.

Fram hefur tilkynnt um samning Alexanders en samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur Albert einnig skrifað undir nýjan samning.

Alexander er 26 ára sóknarmaður og gildir samningur hans út tímabilið 2023. Hann gekk til liðs við Fram á nýjan leik haustið 2019 og hefur síðan þá leikið 46 leiki og skorað 18 mörk.

„Knattspyrnudeild Fram væntir mikils af Alexander Má á komandi árum og það verður spennandi að fylgjast með honum hrella varnir og markverði andstæðinganna í Pepsi-Max deildinni á næstu leiktíð," segir í tilkynningu Framara.

Albert Hafsteinsson var einn besti leikmaður Lengjudeildarinnar í sumar og var valinn í lið ársins. Hann er 25 ára gamall miðjumaður sem semur einnig út 2023.

Það eru samt sem áður ekki bara jákvæðar fréttir fyrir stuðningsmenn Fram en liðið er að missa varnarmanninn Kyle McLagan sem hefur ákveðið að taka tilboði frá Íslandsmeisturum Víkings.
Athugasemdir
banner
banner
banner