fös 01. október 2021 07:52
Arnar Daði Arnarsson
Óli Jó framlengir við FH - Davíð Þór stígur til hliðar (Staðfest)
Ólafur verður áfram í Krikanum.
Ólafur verður áfram í Krikanum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur Jóhannesson hefur framlengt samningi sínum við FH. Ólafur stýrir FH-liðinu næstu tvö árin. Þetta er tilkynnt á samfélagsmiðlum FH í morgunsárið.

Óli Jó tók við FH-liðinu í júní á þessu ári eftir að Logi Ólafsson yfirgaf FH-liðið. Ólafur stýrði FH til fyrsta Íslandsmeistaratitilsins árið 2004 og endurtók leikinn næstu tvö ár. Hann gerði síðan FH að bikarmeisturum árið 2007.

Ólafur tók við FH í fjórða sinn fyrr í sumar en hann kvaddi með fyrsta bikarmeistaratitli félagsins árið 2007 til að taka við íslenska landsliðinu sama ár.

Davíð Þór Viðarsson sem hafði áður verið bæði aðstoðarmaður Loga Ólafssonar og síðan Ólafs Jóhannessonar í sumar hefur ákveðið að láta af störfum sem aðstoðarþjálfari liðsins. „Er honum þakkað vel unnið starf síðastliðið ár. Það er trú félagsins að með ráðningu Ólafs og frekari tilkynningum á næstu misserum um breytingar hjá Fimleikafélaginu muni styrkja félagið í því að verða leiðandi afl í íslenskri knattspyrnu," segir í tilkynningu frá FH.

Nú er bara stóra spurningin, hver verður aðstoðarmaður Ólafs. Sigurbjörn Hreiðarsson sem hætti á dögunum með Grindavík er sterklega orðaður við þá stöðu en þeir félagar, Ólafur og Sigurbjörn unnu saman á Hlíðarenda þar sem þeir urðu Íslandsmeistarar tvisvar og bikarmeistarar tvisvar með Val.

Á nýafstöðnu tímabili náði FH í 22 stig af 39 eftir að Ólafur og Davíð Þór Viðarsson tóku við. Liðið endaði í 6. sæti deildarinnar með 33 stig.


Athugasemdir
banner