
Það var ekkert hik í landsliðsfyrirliðanum Glódísi Perlu Viggósdóttur er hún var spurð á fréttamannafundi út í meiðsli sem voru að hrjá hana fyrir nokkrum vikum síðan.
Glódís missti af landsliðsverkefni í apríl vegna meiðslana en sneri svo aftur um mánaðarmótin maí/júní í leiki gegn Noregi og Frakklandi. Hún er alveg klár í slaginn fyrir EM.
Glódís missti af landsliðsverkefni í apríl vegna meiðslana en sneri svo aftur um mánaðarmótin maí/júní í leiki gegn Noregi og Frakklandi. Hún er alveg klár í slaginn fyrir EM.
„Ég er toppmálum, mjög klár í þetta," sagði Glódís.
Þegar hún var svo spurð hvort hún teldi meiðslin væru alveg frá, þá hikaði hún ekkert og sagði:
„Já, ég geri það."
Leiðir liðið út í fyrsta sinn á stórmóti
Glódís varð þrítug á dögunum en er samt sem áður að fara á sitt fjórða stórmót. Hún er algjör reynslubolti í faginu.
„Það er auðvitað bara gaman. Mótin eru alltaf að stækka og manni líður alltaf eins og maður sé að fara í eitthvað nýtt og eitthvað stærra. Ég held að ég og Dagný (Brynjarsdóttir) reynum að miðla þessari reynslu til þeirra sem eru aðeins yngri og eru að koma með í fyrsta skiptið. Ég er alltaf jafnglöð að vera í hópnum og fá að taka þátt í þessu, alveg sama hversu oft maður hefur gert þetta. Ég er gríðarlega spennt fyrir þessu móti, alveg jafn spennt og fyrir fyrsta mótinu," segir Glódís sem fór á sitt fyrsta mót 2013.
„Þetta er fjórða mótið mitt og það er frekar skrítið því mér líður ekki eins og ég hafi farið á svona mörg mót. Ég var bara 18 ára þegar ég fór á mitt fyrsta mót en það skiptir ekki máli hversu gömul þú ert; ef þú ert tilbúin, þá ertu tilbúin. Ég fékk að byrja gegn Þýskalandi á því móti sem var risastórt fyrir mig. Ég spilaði á móti bestu leikmönnum heims en það var ótrúleg reynsla. Ungu leikmennirnir okkar þurfa að vita það að ef þær fá tækifærið, þá er það vegna þess að þær eru tilbúnar og þær munu höndla það."
Hún er spennt fyrir því að leiða liðið út á stórmóti.
„Ég hef náttúrulega aldrei leitt liðið áður út á stórmóti. Á morgun verður það gríðarlega stórt augnablik fyrir mig að fá að leiða þennan frábæra hóp út í þetta mót. Ég er gríðarlega spennt fyrir því. Auðvitað er maður þá extra þakklátur fyrir að vera hérna og fá að gera þetta, fá þessa ábyrgð. Hópurinn er bara svo gríðarlega sterkur og frábær. Við erum með gríðarlega mikið af leiðtogum innanborðs. Ég er mjög spennt fyrir þessu móti," sagði Glódís.
Allt upp á tíu þar
Landsliðið hefur fengið góðar móttökur hvert sem það hefur farið í Sviss; það var klappað á æfingasvæðinu og á hótelinu þegar þær mættu þangað. Það fer mjög vel um liðið í Sviss og yfir engu að kvarta.
„Það var tekið gríðarlega vel á móti okkur þegar við komum á hótelið. Við erum í algjörri sveitarsælu með frábært útsýni og alveg við vatnið í algjörri ró þar sem við getum kúplað okkur út á milli æfinga og leikja. Starfsfólkið hefur gert allt til þess að okkur líði sem best. Allt þar hefur verið upp á tíu. Svo er ótrúlega gaman að koma á æfingasvæðið þar sem lókal liðið á þessu er að lána okkur sinn völl til að æfa á og er að reyna að gera allt sem þau geta til að okkur líði vel. Það er náttúrulega bara eitthvað sem við erum mjög þakklát fyrir," sagði Glódís á fundinum.
Leikir Íslands á EM 2025:
2. júlí, Ísland - Finnland
6. júlí, Ísland - Sviss
10. júlí, Ísland - Noregur
Athugasemdir