Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 02. ágúst 2022 13:39
Ástríðan
Hitamál í Breiðholti - „Styrktaraðili hringt og hótað því að hætta"
ÍR-ingar fagna marki.
ÍR-ingar fagna marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Þór Jónsson, formaður knattspyrnudeildar ÍR.
Magnús Þór Jónsson, formaður knattspyrnudeildar ÍR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá ÍR í sumar.
Úr leik hjá ÍR í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Það vakti athygli þegar rennt var yfir skýrslu úr leik Hattar/Hugins og ÍR í 2. deild karla á dögunum. Þar var á skýrslu Árni Birgisson í liðsstjórn hjá ÍR-ingum.

Árni er fyrrum framkvæmdastjóri ÍR en hann var í október á síðasta ári dæmdur fyrir fjárdrátt, umboðssvik og peningaþvætti. Hann var dæmdur fyrir að hafa í starfi sínu dregið að sér samtals tæpar 3,2 milljónir króna og greitt eigin reikninga með kreditkorti félagsins fyrir tæpar 1,6 milljónir króna.

Hann var dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í desember á síðasta ári fyrir brot sín.

Árni hefur fengið að halda áfram að starfa fyrir ÍR þrátt fyrir þetta og var hann á skýrslu hjá karlaliði félagsins sem liðsstjóri á dögunum. Magnús Þór Jónsson, formaður knattspyrnudeildar ÍR, sagði í samtali við Vísi að það væri ekkert tiltökumál að Árni starfi áfram í þágu ÍR.

„Leikmennirnir náttúrulega þekkja hann mjög vel. Eins og ég segi, í ljósi þess að sonur hans er í þessu liði. Hann hefur til dæmis verið að steikja hamborgara fyrir okkur og svona í sumar. Hann hefur verið í kringum þá. Það er nú bara stundum þannig í svona leikjum úti á landi, þá hafa menn verið að detta inn á leikskýrsluna, en hann var ekki á bekknum í leiknum og verður ekki. Þetta var bara að fljúga liðinu austur, taka saman búningana og keyrði þá í morgunmat og svo upp á völl," sagði Magnús.

ÍR samfélagið er ekki sátt við þetta
Það var umræða um þetta mál í hlaðvarpsþættinum Ástríðunni. Þar var bent á það að mikið af stuðningsfólki ÍR væri ósátt við þetta mál.

„Það er alveg steikt að það er ekki liðið ár síðan þetta mál var í gangi og hann er núna mættur á skýrslu hjá félaginu," sagði Gylfi Tryggvason.

„Ef þú ert að horfa á strákinn þinn spila á Egilsstöðum, þú vilt fljúga sjálfur til að horfa og hjálpa liðinu með því að keyra rútuna - ef allir eru sáttir við það - ekkert mál. En þetta býr til miklu meira vesen heldur en þetta gerir gott. Ég veit það ekki, mér finnst þetta steikt," sagði Gylfi jafnframt.

Kristófer Davíð Traustason, mikill ÍR-ingur og leikmaður Léttis, fór á Twitter og tjáði sig þar um málið. Getur þú @maggimark bent mér á einhvern annan en sjálfan þig sem þykir þetta ekki vera neitt tiltökumál?" skrifaði Kristófer.

„ÍR samfélagið er ekki sátt við þetta. Þetta er auka hiti á Magga eftir að hafa fengið talsverðan hita fyrir Arnar Halls málið. Ég ég hef fengið það nokkuð staðfest að Arnar hættir ekki sem þjálfari út af neinu öðru nema samskiptum þar á milli," sagði Sverrir Mar Smárason. „Mér er sagt að Arnar Halls sé ósáttur við það hversu lítinn stuðning hann fékk."

„Ég ætla ekki að vera maðurinn sem bendir á hann og segir að hann eigi ekki skilið annað tækifæri, en það er svo stutt síðan þetta gerðist og þetta er greinilega viðkvæmt mál fyrir ÍR-inga. 'Höldum honum þá innan skynsamlegra marka, ekki í liðstjórn'," sagði Óskar Smári Haraldsson.

„Það hefur styrktaraðili hringt og hótað því að hætta að styrkja félagið," sagði Sverrir.

„Eðlilega kannski. Maður er ekki að fara að taka menn af lífi fyrir að gera mistök og læra af því, en þetta er of snemmt. Þú ert að setja pening í félagið og þarna er nýbúið að dæma mann fyrir að draga að sér fé. Vill maður ekki fá tryggingu að þetta sé ekki að fara að gerast aftur?" sagði Gylfi.

Hægt er að hlusta á alla umræðuna hér fyrir neðan en þar var rætt um það að ungir ÍR-ingar séu ekki sáttir með það hvernig er staðið að málum og séu að undirbúa það að koma sér í stjórn.


Ástríðan - 2. deildar special - 13. og 14. umferð
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner