Van Dijk vill framlengja - PSG og Juve vilja Salah - Man Utd vill Rabiot
banner
   fös 02. ágúst 2024 13:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Væri galið að að reyna ekki að fá hann með okkur í þetta"
Pálmi Rafn Pálmason.
Pálmi Rafn Pálmason.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Óskar Hrafn Þorvaldsson kemur inn í teymið.
Óskar Hrafn Þorvaldsson kemur inn í teymið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sumarið hefur verið erfitt hjá KR-ingum.
Sumarið hefur verið erfitt hjá KR-ingum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pálmi stýrir KR út tímabilið og tekur svo við starfi framkvæmdastjóra.
Pálmi stýrir KR út tímabilið og tekur svo við starfi framkvæmdastjóra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn tekur við liði KR eftir tímabilið.
Óskar Hrafn tekur við liði KR eftir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta leggst bara vel í mig og ég er spenntur fyrir þessu," segir Pálmi Rafn Pálmason, þjálfari KR, um þær breytingar sem voru tilkynntar hjá Vesturbæjarstórveldinu í gær.

KR gaf það út í gær að Óskar Hrafn Þorvaldsson muni koma inn í þjálfarateymi KR og taka svo við sem aðalþjálfari eftir sumarið. Auk þess að þjálfa meistaraflokk karla hjá KR mun Óskar verða yfirmaður fótboltamála.

Pálmi, sem hefur stýrt KR síðustu vikur eftir að Gregg Ryder var rekinn, mun svo taka við sem framkvæmdastjóri félagsins eftir að yfirstandandi keppnistímabili lýkur.

Pálma líst vel á breytingarnar og fagnar því að fá Óskar Hrafn inn í teymið með sér út tímabilið.

„Ég bað hann um að koma og aðstoða okkur. Loksins samþykkti hann það hjá mér. Ég er mjög ánægður með það. Fyrir mér væri galið - í stöðunni sem við erum - að reyna ekki að fá hann með okkur í þetta," segir Pálmi.

„Ég er alveg búinn að tuða aðeins í honum, ég viðurkenni það. Hann hefur verið mjög skýr með það að hann ætlaði ekki út í þjálfun, alveg sama hvað hinir og þessir fjölmiðlar hafa sagt. Ég ætla ekki að tala fyrir hann, en hann var búinn að gefa það út. Ég þurfti að tuða í honum. Ég viðurkenni það fúslega."

En af hverju samþykkti Óskar að koma inn núna?

„Ég svo sem veit það ekki og ætla ekki að svara fyrir hann. Ég get svo sem ímyndað mér það að honum þyki bara vænt um félagið, eins og hann hefur sagt. Hann vill auðvitað ekki að við séum í þessari stöðu. Það er enginn KR-ingur sem vill sjá þessa stöðu, það segir sig sjálft," segir Pálmi en KR hefur gengið afleitlega á tímabilinu og er í níunda sæti Bestu deildarinnar, aðeins þremur stigum frá fallsæti.

Byrjaði bara strax í gær
Óskar var á sinni fyrstu æfingu í gær og kveðst Pálmi strax vera farinn að læra af honum.

„Hann kom inn á fyrstu æfinguna sína í gær. Það gekk bara vonum framar. Hann er með sterka rödd og mikla þekkingu. Ég vona að við náum að sækja meiri orku í hópinn. Við megum ekki reikna með einhverjum töfrabrögðum en það er gríðarlega sterkt fyrir okkur að fá hann inn með alla hans þekkingu, reynslu og kraft," segir Pálmi og bætir við:

„Það er engin spurning að ég muni læra af honum. Það byrjaði bara strax í gær."

Það verða ekki frekari breytingar á þjálfarateyminu. Vigfús Arnar Jósefsson verður áfram hluti af teyminu með Pálma og Óskari.

„Auðvitað vonast maður til þess að þetta verði til að það komi meiri kraftur í hópinn. Við þurfum að ná í úrslit. Ef ég hefði ekki trú á því að þetta myndi virka, þá hefði ég ekki óskað eftir þessu. Ég reikna með því að þetta lyfti liðinu upp. Ég er spenntur fyrir næstu vikum. Það er gríðarlega mikilvægur leikur (gegn HK) á miðvikudaginn og við þurfum að vera klárir í hann. Svo sjáum við hvað þetta gefur okkur," segir Pálmi.

Stoltur að fólk vilji hafa mig þarna
Eins og kemur fram hér að ofan þá mun Pálmi taka við starfi framkvæmdastjóra hjá KR eftir tímabilið. Eftir að hann hætti sem leikmaður þá hefur hann gengið í öll störf fyrir KR; hann hefur verið íþróttafulltrúi, þjálfað í yngri flokkum, þjálfað kvennaliðið, verið aðstoðar- og aðalþjálfari karlaliðsins og verður næst framkvæmdastjóri.

„Ég er búinn að segja það sjálfur að þetta er orðið hálf kjánalegt og ég er búinn að lofa því að þetta verði síðasta starfið sem ég tek í bili. Ég reyndar kýs að horfa á það þannig að ég er þakklátur fyrir að mér sé treyst í þetta allt saman og það sé óskað eftir því að ég sé þarna. Mér líður mjög vel í Vesturbænum og hef gríðarlegan metnað fyrir því að hjálpa KR að komast aftur í fremstu röð og það verði stabílt þar. Ég mun halda áfram að reyna að gera allt sem ég get í því," segir Pálmi.

„Það er heiður að mér sé treyst til að sinna öllum þessum störfum. Eitthvað af þessu hefur verið hálfgerð tilviljun. Ég ætlaði ekki að taka öll þessi störf en þegar hefur verið óskað eftir minni hjálp, þá hef ég tekið það að mér. Ég er stoltur af því að fólk vilji hafa mig þarna."

Um starf framkvæmdastjóra segir hann: „Ég er spenntur að taka það að mér þegar að því kemur."

En mun hann þjálfa aftur í framtíðinni?

„Ég er ekki frá því að ég eigi eftir að þjálfa aftur. Mér finnst fínt að fá að stíga aðeins út eftir tímabilið og fá 'drive-ið' aftur. Ég hef verið í þessu sem leikmaður og þjálfari allt mitt líf og allt mitt fjölskyldulíf. Ég hlakka til að fá smá frítíma til að fylgja strákunum mínum tveimur og fá að standa við loforð sem ég gaf konunni minni um að taka smá hlé frá fótbolta eftir ferilinn. Ég fæ kannski eitt eða tvö stig heima fyrir núna. Ég vona það," segir hann léttur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner