„Ég á einn mánuð eftir. Svo tek ég til á skrifstofunni minn og geng frá dótinu mínu. Við sjáum til hvað setur," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir 4-3 sigur gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í gær.
KR tilkynnti á föstudag að Rúnar myndi ekki fá nýjan samning hjá félaginu. Rúnar hefur stýrt liðinu síðan haustið 2017 og varð liðið Íslandsmeistari undir hans stjórn árið 2019. Hann hafði áður stýrt liðinu á árunum 2010-2014 og varð liðið þá Íslandsmeistari í tvígang og bikarmeistari í þrígang. Hann er goðsögn bæði sem leikmaður og þjálfari hjá félaginu.
„Það er ágætt að fá að anda með nefinu í nokkra daga og horfa um öxl, að sjá hvort ég geti gert eitthvað betur. Maður þarf að læra, alltaf að reyna að bæta sig," segir Rúnar.
Rúnar er með gríðarlega sterka tengingu við KR og það er erfitt að ímynda sér hann hjá öðru íslensku félagi, en hann útilokar það alls ekki að þjálfa hjá öðru félagi.
„Mér hefur þótt það ofboðslega skrítin tilhugsun sjálfur, en þetta er bara vinna í enda dagsins. Ef það fer eitthvað annað merki á barminn þá verður það skrítið, en þetta er bara vinna og maður vill standa sig. Til þess að halda í vinnu og ná árangri, þá þarf maður að standa sig vel. Ég mun gera það hvar sem er ef ég held áfram í þjálfun," sagði Rúnar
Athugasemdir