Það hafa vaknað áhyggjur hjá Real Madrid út af frammistöðu franska miðjumannsins Aurelien Tchouameni að undanförnu. Þessar áhyggjur hafa komið eftir 1-1 jafntefli gegn Atletico Madrid á dögunum.
Tchouameni byrjaði á miðsvæðinu ásamt hinum 39 ára Luka Modric en á endanum var Modric öflugari varnarlega en Tchouameni sem er 15 árum yngri.
AS segir þá frá því að Federico Valverde, sem hafi byrjað á hægri kanti, hafi þá oft þurft að fylla upp í stöðu fyrir Tchouameni og það hafi verið mun meiri orka í honum en Frakkanum.
„Það eru ákveðnar áhyggjur vegna frammistöðu Aurelien Tchouameni," segir í grein AS.
Þá segir Fichajes frá því að Real Madrid sé tilbúið að hlusta á tilboð frá Liverpool í leikmanninn. Liverpool hafði mikinn áhuga á Tchouameni áður en hann fór til Real Madrid en sagt er að Madrídingar hafi látið Liverpool vita að 80 milljón evra tilboð verði samþykkt.
Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, kom Tchouameni til varnar eftir leikinn gegn Atletico en miðjumaðurinn hefur spilað 97 leiki fyrir spænska stórveldið eftir að hann kom til félagsins frá Mónakó sumarið 2022.
Athugasemdir