Spænski miðjumaðurinn Martin Zubimendi segist ekki sjá eftir þeirri ákvörðun að vera áfram hjá Real Sociedad í stað þess að fara til Liverpool á Englandi.
Liverpool var í viðræðum við Sociedad og Zubimendi í ágúst og var það talið svo gott sem frágengið að hann færi til enska félagsins.
Sociedad sannfærði Zubimendi um að vera áfram og varð því ekkert úr skiptunum.
Zubimendi er uppalinn hjá Sociedad og einn af eftirsóttustu djúpu miðjumönnum heims, en ákvörðun hans kom mörgum á óvart.
„Ég sé ekki eftir því. Ég get ekki hugsað þetta þegar það eru fjórir eða fimm leikir búnir af tímabilinu. Ákvörðunin kom frá hjartanu og var þetta það sem ég taldi réttast í stöðunni. Úrslitin hafa engin áhrif á mig,“ sagði Zubimendi.
Það hefur verið örlítið ryð í Sociedad í byrjun tímabils. Liðið er aðeins með átta stig eftir átta leiki, en virðist þó vera að finna taktinn á ný.
„Ég hef trú á þessu liði og þú þyrftir bara að sjá okkur æfa til að skilja það. Ég er spenntur fyrir því að eiga gott tímabil hér,“ sagði Zubimendi.
Athugasemdir