Rodrygo orðaður við Arsenal - Wirtz velur milli Bayern og Liverpool - Barcelona vill Díaz
   fös 03. mars 2023 13:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Höfuðhöggin voru orðin of mörg - Gat ekki leyft sér að taka meiri áhættu
Óttar (hér til vinstri) lyftir bikarnum eftir að Leiknir vann 1. deildina 2014.
Óttar (hér til vinstri) lyftir bikarnum eftir að Leiknir vann 1. deildina 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Leikni síðasta sumar.
Í leik með Leikni síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilaði einnig með ÍA og Stjörnunni á sínum ferli.
Spilaði einnig með ÍA og Stjörnunni á sínum ferli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég stefni á að kíkja á golfvöllinn einhvern tímann'
'Ég stefni á að kíkja á golfvöllinn einhvern tímann'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Varnarmaðurinn Óttar Bjarni Guðmundsson staðfesti það í samtali við Fótbolta.net í gær að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna.

Óttar Bjarni er 32 ára gamall en hann spilaði með Leikni síðasta sumar. Hann gat lítið beitt sér vegna höfuðmeiðsla og spilaði hann aðeins fjóra leiki.

Hann gekk aftur í raðir Leiknis fyrir síðasta tímabil eftir nokkur ár á Skaganum. Hann fékk hins vegar slæmt höfuðhögg og heilahristing í fyrstu umferð Bestu deildarinnar gegn KA.

Það tók langan tíma fyrir Óttar að snúa aftur á fótboltavöllinn eftir höfuðhöggið fyrir norðan en bakslög komu í ferlið. Honum tókst að snúa aftur en fékk svo aftur slæmt höfuðhögg í leik gegn Breiðabliki í ágúst.

„Ég er búinn að pæla mikið í þessu eftir síðasta tímabil, eftir öll þessi höfuðhögg sem maður hefur fengið - bæði í gegnum tíðina og núna á síðasta tímabili þar sem ég fékk tvö högg. Ég var frá í samtals átta eða níu mánuði á síðasta ári," segir Óttar við Fótbolta.net er hann er spurður að því hvers vegna hann er að hætta á þessum tímapunkti.

„Höggin hafa verið of mörg í gegnum tíðina. Síðasta tímabil fékk mann til að hugsa alvarlega um stöðuna, hvort það sé þess virði að fórna sér í enn eitt höggið. Ég fór í aðgerð á mjöðm í nóvember og hef fengið mjög góðan tíma til að melta þetta, og þetta er niðurstaðan."

Einkennasúpa sem fylgir höfuðhöggum
Höfuðhöggin sem Óttar fékk á síðasta tímabili héldu honum frá keppni í langan tíma. Hvernig áhrif voru það að hafa á hann?

„Fyrst um sinn voru þetta höfuðverkjaköst, hristingur og þessi hefðbundnu höfuðhöggseinkenni sem maður þekkir. Þau voru mislengi að fara þessi fyrstu einkenni. Maður var líka þreyttur í vinnunni og það var erfitt að koma sér í gegnum vinnudaginn. Ég fékk líka verki í augun."

„Þegar maður var búinn með þann pakka og var að reyna að koma sér af stað þá fékk maður svima við hreyfingu og slíkt, sem kýldi mann til baka aftur. Þessi einkennasúpa sem fylgir höfuðhöggum það gerir það erfitt að koma sér af stað aftur."

Hann segir að það hafi verið erfitt að stíga aftur inn á fótboltavöllinn eftir höfuðhöggin.

„Það var virkilega erfitt, sérstaklega eftir fyrsta höggið. En ég var með frábæran sjúkraþjálfara og leitaði mér hjálpar hjá fagfólki sem aðstoðaði mig við að takast á við óttann. Svo þegar seinna höggið kemur þá finn ég það að ég treysti því ekki að bjóða sjálfum mér né fjölskyldu minni að taka frekari áhættu með þetta."

Hann segist vera orðinn betri í dag, búinn að vera fínn í dágóðan tíma eftir að hafa fengið góða hvíld en hann er ekki tilbúinn að taka áhættuna. „Ég er fínn í dag."

Fjölskyldan í fyrsta sæti
Óttar ólst upp með Leikni og lék með félaginu til 2016 en þá fór hann til Stjörnunnar. Í kjölfarið lék hann svo með ÍA frá 2019 til 2021. Virkilega flottur ferill hjá Breiðhyltingnum en núna ætlar hann að einbeita sér að öðru.

Óttar hefur lengi spilað fótbolta en hann segir að það sé ekki eitthvað eitt sérstakt sem standi upp úr.

„Hvert tímabil sem maður tekur hefur sinn sjarma og manni þykir gríðarlega vænt um þau öll. Það eru mörg lítil atvik sem manni þykir rosalega vænt um sjálfur og hugsar mikið um," segir Óttar og bætir við:

„Það voru hápunktar á hverjum stað. Fólkið sem maður kynntist og vinirnir sem maður eignaðist, það stendur upp úr."

Óttar stefnir ekki á að vera neitt viðloðandi fótbolta á næstunni, hann ætlar ekki út í þjálfun eða neitt slíkt.

„Ég stefni ekki á neinn fótbolta. Fyrir það fyrsta ætlar maður að sinna fjölskyldunni eins og maður getur, setja hana í fyrsta sæti. Svo reynir maður að finna sér eitthvað annað að gera, ég stefni á að kíkja á golfvöllinn einhvern tímann," sagði Óttar Bjarni að lokum.
Athugasemdir