Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 03. ágúst 2021 11:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Grafalvarlegar ásakanir - „Þetta er Fram, taktu tapið á kassann"
Lengjudeildin
Orri Freyr Hjaltalín.
Orri Freyr Hjaltalín.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Þór og Fram.
Úr leik Þór og Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Orri Freyr Hjaltalín, þjálfari Þórs, skaut verulega á dómara eftir 0-2 tap gegn Fram í Lengjudeildinni í síðustu viku.

„Vonandi fáum við einhverja almennilega sendingu næst svo vil ég líka taka það fram að það er gjörsamlega galið að vera með aðstoðardómara frá hinu liðinu á Akureyri. Þetta myndi aldrei vera tekið í mál í Reykjavík, KSÍ á alveg nógu mikla peninga til að geta fengið einhvern hlutlausan í að koma hérna og dæma þessa leiki. Ég er búinn að horfa á hans frammistöðu hjá okkur í síðustu leikjum og hún hefur ekki verið okkur í hag ef við orðum það pent," sagði Orri Freyr.

Þetta var tekið fyrir í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðastaliðinn laugardag.

„Ég ætla að giska á því að Klara Bjartmarz sé búin að vísa viðtalinu til aganefndar. Hann sakaði Patrik Frey, aðstoðardómara, um svindl. Þetta er KA-strákur sem var aðstoðardómari. Hann vill ekki hafa KA-menn í teyminu hjá sér og vill meina að þeir séu visvítandi að dæma gegn liðinu," sagði Elvar Geir Magnússon í útvarpsþættinum.

„Þeir sem ég hef rætt við og horfðu á þennan leik eru gáttaðir; það var engan veginn þannig að aðstoðardómari tvö væri að flagga Þór úr leik," sagði Elvar.

„Ef þeir hefðu ekki tapað 2-0 gegn langbesta liðinu í deildinni, þá hefði maður kannski litið tvisvar á þetta. Af hverju ertu að fara þangað á þessum tímapunkti?" sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Þeir hafa stillt sig af og hafa verið eitt skemmtilegasta og eitt besta liðið í þessari deild. Þeir byrjuðu á botninum en hafa verið að vinna sig upp. Þeir eru ekki búnir að tapa leik síðan 22. júní og henda Grindavík úr bikarnum. Frábærlega gert, en það er alltaf eins og það þurfi að vera einhver hiti í Þorpinu; það er alltaf eitthvað."

„Þetta er Fram, taktu tapið á kassann. Ekki vera að saka um einhvern strák um að svindla. Hann á eftir að mæta þarna aftur," sagði Tómas.

„Það er grafalvarlegt að saka einhvern um svindl," sagði Elvar en hægt er að hlusta á alla umræðu í byrjun þáttarins hér að neðan.

Sjá einnig:
„Virkilega óheiðarlegt að saka okkur um að svindla" - Ummæli Orra skoðuð
Útvarpsþátturinn - Blikar í banastuði og peningarnir í íslenska boltanum
Athugasemdir
banner
banner
banner