Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 03. nóvember 2019 11:30
Ívan Guðjón Baldursson
Solskjær um janúargluggann: Eigum fullt af góðum leikmönnum
Mynd: Getty Images
Ole Gunnar Solskjær hefur legið undir gagnrýni á tímabilinu enda er Manchester United aðeins komið með 13 stig eftir 11 fyrstu umferðirnar. Það er versta byrjun félagsins á deildartímabili síðan 1986, þegar Ron Atkinson var rekinn til að gera pláss fyrir Sir Alex Ferguson.

Solskjær er ekki með sérlega öflugan leikmannahóp sem hefur verið mjög þunnur á upphafi tímabils vegna mikilla meiðslavandræða.

„Þú verður að skora mörk til að vinna leiki og ég er viss um að Anthony og Marcus munu vera duglegir við að skora á leiktíðinni. Anthony á bara eftir að verða betri enda nýkominn úr meiðslum, það sem okkur vantar er meiri sköpunargleði fyrir aftan fremstu menn," sagði Solskjær og var svo spurður hvort hann hyggðist kaupa slíkan leikmann í janúarglugganum.

„Við erum með fullt af leikmönnum í hópnum sem gætu verið að skapa meira. Við getum ekki alltaf litið út á við, stundum þurfum við að skoða félagið og nýta leikmenn sem við erum nú þegar með."

Solskjær segist átta sig á vandamálum Rauðu djöflanna í sóknarleiknum en Man Utd er aðeins búið að skora þrettán mörk í deildinni hingað til, og komu fjögur þeirra í fyrstu umferð gegn Chelsea.

Romelu Lukaku, sem var seldur til Inter í sumar, er búinn að skora fleiri deildarmörk síðan í september heldur en allt Man Utd liðið.

Mario Mandzukic, Thomas Müller, Callum Wilson og Moussa Dembele eru meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við félagsskipti til Manchester.
Athugasemdir
banner
banner