Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 04. janúar 2020 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Óskar Sverris um landsliðsvalið: Sönnun þess að ég hef gert eitthvað gott
Óskar í leik með Häcken
Óskar í leik með Häcken
Mynd: Getty Images
Mynd: Heimasíða Mjällby
„Það er mjög skemmtilegt og virðulegt. Ég lít á það sem sönnun þess að ég hef gert eitthvað gott," segir Óskar Sverrisson, leikmaður Häcken í Svíþjóð um landsliðskallið en hann er í hópnum sem fer til Los Angeles í janúar og mætir þar Kanada og El Salvador.

Óskar er 27 ára gamall vinstri bakvörður og er uppalinn í Svíþjóð en hann samdi við Häcken fyrir tímabilið.

Fótbolti.net ræddi við Óskar fyrir rúmlega ári síðanog spurði hann út í möguleikana á að komast í landsliðið en þá var hann bjartsýnn. Nú er sá draumur orðinn að veruleika en hann fær tækifæri til að spreyta sig á næstu dögum.

„Ég var ný kominn til félagsins þá og ég hef einbeitt mér á því að æfa vel og spila vel í allsvenskunni. Ég var að vonast til að ef ég myndi standa mig vel myndi ég allavega hafa möguleika á því að komast í hópinn. En það var ekkert sem ég bjóst við að myndi gerast núna, þannig að ég er mjög ánægður að vera valinn," sagði Óskar við Fótbolta.net í dag.

Óskar hefur aðallega spilað sem vængbakvörður síðustu ár og gerði hann vel með Mjällby tímabilið áður en hann samdi við Häcken en þá skoraði hann 9 mörk með liðinu sem var stýrt af Milos Milojevic.

Hann spilaði aðeins sex leiki í sænsku deildinni á þessu tímabili en hann hefði viljað spila fleiri leiki.

„Ég hefði auðvitað viljað spila meira. Mér fannst ég gera góða hluti bæði í allsvenskunni og Evrópudeildinni, þannig að auðvitað hafði ég viljað spila meira. En stundum er það þannig og þá er mikilvægt að halda áfram að þjálfa markvisst og vera jákvæður. Nú byrjar nýtt tímabil og ég vona að ég fái að spila meira á þessu tímabili."

Milos kom Mjällby upp í sænsku úrvalsdeildina áður en hann hætti hjá félaginu en Óskar er að hugsa um að fara aftur þangað í leit að meiri spiltíma.

„Ég er mjög ánægður og glaður að þeir eru komnir upp í allsvenskuna. Þetta er lítið félag, þar sem margir vinna hörðum höndum fyrir félagið. Ég á 3 ár eftir af samningnum og líður vel í Häcken. Ég mun halda áfram að berjast fyrir því að verða lykilmaður hjá Häcken. Ég veit að ég er ekki síðri en leikmennirnir sem ég keppi á móti, og ég vona að ég fái að spila meira á þessu ári," sagði hann í lokin.

Sjá einnig:
Íslenskur bakvörður í sænsku úrvalsdeildina - Hjálpaði liði Milos Milojevic upp

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner