Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 04. mars 2023 17:05
Brynjar Ingi Erluson
England: Stórkostleg endurkoma Arsenal á Emirates - Þungu fargi létt af Potter
Reiss Nelson fagnar marki sínu seint í uppbótartíma
Reiss Nelson fagnar marki sínu seint í uppbótartíma
Mynd: Getty Images
Wesley Fofana skoraði sigurmark Chelsea
Wesley Fofana skoraði sigurmark Chelsea
Mynd: Getty Images
Adama Traore var hetja Wolves
Adama Traore var hetja Wolves
Mynd: Getty Images
Brighton vann stórsigur á West Ham
Brighton vann stórsigur á West Ham
Mynd: Getty Images
Topplið Arsenal vann ótrúlegan 3-2 endurkomusigur á Bournemouth í 26. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates-leikvanginum í dag. Lærisveinar Graham Potter í Chelsea unnu loks leik og þá voru yfirburðir Tottenham ekki nóg til að leggja Wolves að velli.

Arsenal byrjaði ekki leikinn alveg eins og liðið hefði viljað en eftir aðeins 11 sekúndur kom Philip Billing Bournemouth yfir. Liðið tók upphafsspyrnuna hratt og skoraði Billing með skoti úr teignum eftir fyrirgjöf frá hægri.

Heimamenn fóru strax í það að sækja. Martin Ödegaard og Bukayo Saka komust í fín færi en brasilíski markvörðurinn Neto var vel vakandi og varði báðar tilraunir.

Arsenal vildi fá vítaspyrnu á 35. mínútu er Chris Mepham handlék knöttinn í teignum en VAR sagði nei. Boltinn kom við efri hlutann á ermi Mepham og því ekki vítaspyrna.

Bournemouth komst í 2-0 á 57. mínútu er Marcos Senesi stangaði hornspyrnu Joe Rothwell í netið en Thomas Partey náði að svara strax með því að minnka muninn tæpum fimm mínútum síðar með góðu skoti úr teignum.

Ben White jafnaði metin á 70. mínútu með skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Reiss Nelson. Neto varði boltann út úr markinu en marklínutæknin var í góðu lagi og dæmdi mark.

Arsenal sótti og sótti á Bournemouth og þegar öll von virtist út mætti Reiss Nelson og kláraði gestina. Martin Ödegaard tók hornspyrnu sem datt út fyrir teiginn. Þar var Nelson mættur, tók eina snertingu áður en hann þrumaði boltanum í hægra hornið og ætlaði þakið að rifna af Emirates, stemningin var það rafmögnuð.

Ótrúleg endurkoma og Arsenal áfram með fimm stiga forystu í efsta sæti deildarinnar.

Fofana bjargaði Potter - Grátlegt tap Tottenham

Chelsea vann fyrsta leik sinn í deildinni síðan 15. janúar er liðið lagði Leeds United að velli, 1-0, á Stamford Bridge.

Fyrir leikinn var talið að þetta væri úrslitaleikur fyrir Graham Potter, stjóra félagsins, sem situr í heitu sæti.

Joao Felix og Kai Haverts fengu góða sénsa í fyrri hálfleik að skora en boltinn vildi ekki inn. Í þeim síðari kom sigurmarkið en Wesley Fofana skallaði þá boltann í netið eftir hornspyrnu.

Mikilvægur sigur fyrir Potter og hans menn sem eru í 10. sæti með 34 stig.

Tottenham Hotspur tapaði óvænt fyrir Wolves, 1-0, á Molineux-leikvanginum.

Gestirnir voru nálægt því að taka forystuna undir lok fyrri hálfleiks. Fyrst átti Heung-Min Son skot yfir markið áður en Pedro Porro þrumaði aukaspyrnu sinni í þverslá.

Í þeim síðari átti Son einnig sláarskot. Wolves vann sig betur inn í leikinn og fékk Matheus Cunha gott færi en boltinn framhjá markinu.

Wolves gat leyft sér að fagna þegar átta mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Adama Traore skoraði þá sigurmark liðsins með föstu skoti í slá og inn.

Grátlegt tap fyrir Tottenham sem er þó áfram í 4. sæti með 45 stig.

Aston Villa marði Crystal Palace, 1-0. Eina mark leiksins var sjálfsmark frá Joachim Andersen á 27. mínútu. Cheick Doucoure gerði þá Palace erfiðara fyrir er hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt á á 62. mínútu leiksins.

Brighton kjöldró West Ham, 4-0, á AMEX-leikvanginum. Alexis Mac Allister skoraði fyrsta markið úr víti á 18. mínútu áður en lagði annað markið upp fyrir Joel Veltman snemma í síðari hálfleiks.

Kaoru Mitoma og Danny Welbeck gerðu síðan út um leikinn. Brighton er í 8. sæti með 34 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Arsenal 3 - 2 Bournemouth
0-1 Philip Billing ('1 )
0-2 Marcos Senesi ('57 )
1-2 Thomas Teye Partey ('62 )
2-2 Ben White ('70 )
3-2 Reiss Nelson ('90 )

Aston Villa 1 - 0 Crystal Palace
1-0 Joachim Andersen ('27 , sjálfsmark)
Rautt spjald: Cheick Oumar Doucoure, Crystal Palace ('62)

Brighton 4 - 0 West Ham
1-0 Alexis MacAllister ('18 , víti)
2-0 Joel Veltman ('52 )
3-0 Kaoru Mitoma ('69 )
4-0 Danny Welbeck ('89 )

Chelsea 1 - 0 Leeds
1-0 Wesley Fofana ('53 )

Wolves 1 - 0 Tottenham
1-0 Adama Traore ('82 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner