mán 04. maí 2020 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Rangnick: Það þarf mikið að gerast til að ég fari aftur út í þjálfun
Ralf Rangnick
Ralf Rangnick
Mynd: Getty Images
Ralf Rangnick, fyrrum þjálfari RB Leipzig í Þýskalandi, segir að það þurfi mikið til að hann fari aftur út í þjálfun en hann ræddi við þýska miðilinn Mitteldeutsche Zeitung.

Rangnick hefur þjálfað félög á borð við Schalke, Hoffenheim, Stuttgart og Leipzig. Hann hefur tvisvar þjálfað Leipzig en hann tók við sem bráðabirgðaþjálfari árið 2015 og svo stýrði hann liðinu á síðustu leiktíð áður en hann hætti.

Hann hefur þá verið heilinn á bakvið mikinn uppgang hjá Leipzig og Salzburg með því að finna leikmenn sem henta leikkerfinu sem liðin spila. Í dag starfar hann fyrir Red Bull í að þróa leikmenn hjá New York Red Bull og Red Bull Brasil en hann hefur þegar skilað þremur leikmönnum þaðan í Leipzig.

Undanfarnar vikur hefur hann verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá AC Milan og staðfesti hann viðræður við félagið en hann er þó óviss um að snúa sér aftur að þjálfun.

„Það er klárlega áhugi frá Milan en fólk hefur verið að hugsa um mikilvægari hluti vegna kórónaveirunnar frekar en að pæla í því hvort Rangnick sé rétti maðurinn fyrir félagið og hvort Milan sé rétti staðurinn fyrir mig," sagði Rangnick.

„Það fer allt eftir félaginu hvort ég snúi mér aftur að þjálfun en þetta eru allt bara fabúleringar núna. Ég hef búið í Leipzig í sex ár og mér líður mjög vel hérna og get alveg ímyndað mér að vera lengur. Það þarf mikið að gerast til að ég fari að hugsa um eitthvað annað."

„Ég er ekkert að hugsa um fjárhagslegu hliðarnar. Þetta sny´st um það hvort ég fái að hafa áhrif. Þetta snýst kannski ekki beint um völd þó maður þurfi þau í ákveðnum aðstæðum,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner