William Saliba, Cristian Romero, Lamine Yamal og fleiri koma við sögu í pakkanum
   mið 04. september 2024 20:27
Brynjar Ingi Erluson
Meistaradeild kvenna: Amanda skoraði og mætir sínu gamla félagi - Alexandra hafði betur í Íslendingaslag
Amanda mætir Val í undanúrslitum í forkeppni Meistaradeildar Evrópu
Amanda mætir Val í undanúrslitum í forkeppni Meistaradeildar Evrópu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexandra er komin áfram
Alexandra er komin áfram
Mynd: Getty Images
Landsliðskonurnar Alexandra Jóhannsdóttir og Amanda Andradóttir eru báðar komnar áfram í 2. umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir sigra í kvöld.

Alexandra spilaði á miðjunni hjá Fiorentina sem vann Bröndby, 1-0, í Íslendingaslag.

Ingibjörg Sigurðardóttir, sem gekk í raðir Bröndby á dögunum, lék allan leikinn ásamt Hafrúnu Rakel Halldórsdóttur.

Fiorentina var með mikla yfirburði í leiknum og óhætt að segja að sigurinn hafi verið sanngjarn, en Fiorentina mætir Ajax í næstu umferð, úrslitaleik forkeppninnar.

Amanda byrjaði á meðan á bekknum hjá Twente sem vann 7-0 stórsigur á Cardiff City. Landsliðskonan kom inn af bekknum á 67. mínútu og þakkaði fyrir sig átta mínútum síðar með góðu marki.

Einnig fiskaði hún vítaspyrnuna í sjöunda marki Twente sem kom í uppbótartíma.

Öruggt og þægilegt hjá Twente sem mun mæta Íslandsmeisturum Vals í næstu umferð. Amanda kom til Twente frá Val í sumar.

Leikurinn fer fram á laugardag á Sportpark Scheuserve-vellinum í Enschede í Hollandi.

María Catharina Ólafsdóttir Gros kom þá inn af bekknum í 3-1 tapi Linköping gegn Spörtu Prag. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma en tékkneska liðið skoraði tvö mörk í framlengingunni og sigldi örugglega áfram í næstu umferð.

Emilía Ásgeirsdóttir var í liði Nordsjælland sem tapaði fyrir portúgalska stórliðinu Benfica, 3-1, á Stadion Asim Ferhatovic Hase-vellinum í Sarajevo í Bosníu. Emilía fór af velli í síðari hálfleiknum.

Stórlið Arsenal vann þá þægilegan 6-0 sigur á Rangers. Caitlin Foord skoraði fjögur fyrir Arsenal og þá skoruðu þær Alessia Russo og Kim Little sitthvort markið.

Arsenal mætir Selmu Sól Magnúsdóttur og stöllum hennar í Rosenborg í næstu umferð.
Athugasemdir
banner
banner