Yfirgefur Breiðablik eftir rúman áratug hjá félaginu til þess að spila í úrvalsdeildinni í Singapúr.
Damir Muminovic er genginn í raðir DPMM sem leikur í úrvalsdeildinni í Singapúr. Liðið er í Brúnei og þarf að fljúga frá eyjunni í alla útileiki.
Félagið tilkynnti um komu Damirs í ágúst og varnarmaðurinn rifti samningi sínum við Breiðablik í síðasta mánuði og hefur gengið frá lausum endum. Samningur hans gildir út maí og heldur Damir út seinna í þessum mánuði.
Félagið tilkynnti um komu Damirs í ágúst og varnarmaðurinn rifti samningi sínum við Breiðablik í síðasta mánuði og hefur gengið frá lausum endum. Samningur hans gildir út maí og heldur Damir út seinna í þessum mánuði.
„Þetta kom fyrst upp einhvern tímann í apríl í gegnum félaga minn, umboðsmann, sem býr í Frakklandi. Hann spurði hvort ég hefði áhuga á að prófa þetta. Þetta gekk ekki upp í apríl og ég heyrði ekki aftur í þeim fyrr en í júní/júlí. Ég ákvað að bíða og klára tímabilið hér og ákvað svo að stökkva á þetta."
„Ég hugsaði þetta vel, þetta er held ég síðasta sénsinn minn til að prófa eitthvað ævintýri. Eftir langar samræður við konuna þá gekk þetta upp. Ég veit voða lítið um Brúnei og Singapúr, ætli ég viti ekki jafnmikið og þú," segir Damir við fréttamann á léttu nótunum - en þá veit hann ekki mikið.
„Ég hef gúglað mig áfram um þetta og fylgst með nokkrum leikjum með þeim og þetta lítur ágætlega út. Ég hef rætt við markmann liðsins og hann segir að fólkið sé mjög gott og fínt land til að búa í. Ég er bara hrikalega spenntur. Það verður gaman að kíkja út og hitta alla." Markvörður DPMM er Norður-Makedóninn Kristijan Naumovski sem lék á sínum tíma 13 landsleiki.
Mjög erfið ákvörðun
Damir fer frá Breiðabliki sem Íslandsmeistari og liðið á leið í forkeppni Meistaradeildarinnar næsta sumar. Er erfitt að fara núna?
„Það er mjög erfitt að fara, þetta var mjög erfið ákvörðun. Ég er búinn að vera í Breiðabliki í 10-11 ára, gengið í gegnum margt hjá þessum klúbb, bæði góða og slæma tíma og það eru mjög spennandi tímar framundan. Ég er búinn að prófa þetta með Breiðablik, unnið titla með liðinu og farið í forkeppni Meistaradeildarinnar. Eins og ég sagði þá er þetta síðasti sénsinn til að prófa eitthvað svona. Þetta er mjög erfið ákvörðun en samt spennandi, held það sé líka hollt og gott fyrir Breiðablik að prófa eitthvað annað. Það eru ungir strákar að koma upp eins og Ásgeir Helgi (Orrason)."
„Samningurinn er út maí. Planið er að koma til baka og spila með Breiðablik seinni hluta mótsins. Það er draumurinn eins og er. Ég veit ekki hvort það sé möguleiki að ég verði lengur úti, það hefur allavega ekki komið til tals eins og staðan er núna."
„Ég á eftir að fara út og sjá hvernig deildin er, hvort ég sé að fara spila mikið. Ég er að fara út í smá óvissu."
Vonaði að tilkynningin myndi ekki finnast
Bent var á það í Dr. Football í síðasta mánuði að hægt væri að finna upplýsingar um félagaskipti Damirs til DPMM frá því í lok ágúst. Fótbolti.net fjallaði í kjölfarið um það en félagaskiptin voru þó ekki alveg klár.
„Það er frábær spurning hvernig þetta ferli var. Ég sá sjálfur ekki þessa tilkynningu í ágúst, skal viðurkenna það, og ég var ekki ánægður með að hún var birt. Ég var að vonast til að þetta kæmi ekki upp á yfirborðið hér á Íslandi. Það gerðist allavega ekki fyrr en í síðasta mánuði. Ég vildi ekki að þetta yrði tilkynnt á þeim tíma, en þetta er búið og gert."
„Það var ekkert vandamál að fá samningnum við Breiðablik rift, þetta var alltaf planið," segir Damir sem hafði sagt við Fótbolta.net í ágúst að hann vonaðist eftir því að fara út eftir tímabilið og nefndi þá að það yrði gott fjárhagslega að spila erlendis.
Fjölskyldan fer út í heimsókn
Damir fer út 14. desember, hittir þá liðsfélaga sína. Stefnan er svo sú að hann komi ekki aftur heim fyrr en í vor þegar tímabilinu er lokið. „Liðið byrjaði að æfa 28. nóvember eftir eitthvað smá frí. Fyrsti leikur er svo 13. janúar. Planið er að Katrín og börnin komi í heimsókn einhvern tímann í febrúar," segir Damir sem er í sambandi með Katrínu Ásbjörnsdóttur sem spilar með Breiðabliki.
Damir er 34 ára miðvörður sem leikið hefur með Ými, HK, Hvöt, Leikni, Víkingi Ólafsvík og Breiðabliki á sínum ferli. Hann hefur tvisvar sinnum orðið Íslandsmeistari og á að baki sex A-landsleiki.
Athugasemdir