Glasner efstur á blaði hjá Man Utd - Rashford fær endurkomuleið á Old Trafford - Juventus ræðir við Liverpool um Chiesa
   mán 05. janúar 2026 10:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Amorim rekinn frá Man Utd (Staðfest)
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Búið er að reka Ruben Amorim frá Manchester United. Það er David Ornstein hjá The Athletic sem greindi fyrst frá. Félagið staðfesti tíðindin svo klukkan 10:08.

Amorim var stjóri félagsins í 14 mánuði, kom frá Sporting í Portúgal og tók við af Erik ten Hag. Hann hitti þá Jason Wilcox og Omar Berrada í morgun og þeir tjáðu honum tíðindin.

Ornstein segir að Darren Fletcher, fyrrum leikmaður félagsins, taki við til bráðabirgða og líkur séu á því að félagið ráði ekki stjóra til frambúðar fyrr en næsta sumar. Fletcher hefur starfað sem U18 þjálfari hjá félaginu.

Gengi United undir stjórn Amorim var ekki gott, sigurhlutfallið var undir 40%. Eftir jafnteflið gegn Leeds í gær hélt Amorim undirbúna ræðu um að hann hefði komið til United til að vera stjóri félagsins, ekki þjálfari liðsins. Líklegt er að þau ummæli hafi ekki fallið vel í kramið hjá ráðamönnum hjá félaginu.

United situr í 6. sæti úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 20 umferðir. Liðið endaði í 15. sæti deildarinnar á síðasta tímabili og tapaði í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Í tilkynningu United er sagt að þeir sem leiði félagið telji ákvörðunina þá réttu á þessum tímapunkti og að hún eigi að gefa liðinu besta möguleikann á því að enda eins ofarlega og hægt er í úrvalsdeildinni í vor.

Fletcher mun stýra liðinu gegn Burnley í næsta leik.


Athugasemdir
banner