Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 05. október 2020 19:51
Ívan Guðjón Baldursson
Wilshere er samningslaus: Ég er bara 28 ára og við góða heilsu
Mynd: Getty Images
Jack Wilshere er samningslaus eftir tveggja ára dvöl hjá West Ham United. Wilshere þótti eitt sinn meðal efnilegustu miðjumanna heims og lét ljós sitt skína undir stjórn Arsene Wenger hjá Arsenal.

Hann varð þó fljótt þekktur fyrir að vera meiðslapési og á endanum neyddist Arsenal til að leyfa honum að fara. Wilshere skrifaði undir hjá félaginu sem hann studdi í æsku, West Ham, en spilaði aðeins 18 leiki þar á tveimur árum þrátt fyrir að vera laus undan meiðslum stærstan hluta dvalarinnar.

Wilshere, sem á 34 leiki að baki fyrir enska landsliðið, telur sig vera kominn yfir meiðslavandræðin sem hafa hrjáð hann allan ferilinn og vill ólmur reyna fyrir sér hjá öðru úrvalsdeildarfélagi. Hann sé á góðum aldri og við góða heilsu.

„Ég get staðfest að samningi mínum við West Ham United hefur verið rift. Þegar ég gekk í raðir félagsins fyrir tveimur árum var ég gríðarlega spenntur fyrir því að spila í liðinu sem ég studdi sem strákur," skrifaði Wilshere í yfirlýsingu.

„Því miður þá hefur dvöl mín hér ekki verið eins og ég bjóst við. Ég hef lagt mig allan fram á æfingum en ekki fengið tækifæri með liðinu síðustu átta mánuði þrátt fyrir að vera ómeiddur.

„Ég er auðvitað pirraður yfir því að hafa ekki sýnt mínar bestu hliðar hjá West Ham en ég hef ennþá fulla trú á að ég geti spilað í hæsta gæðaflokki. Ég er ótrúlega hungraður og metnaðarfullur og ég þrái að spila fótbolta og ná árangri. Ég er bara 28 ára gamall og við góða heilsu.

„Ég hlakka til framtíðarinnar og vonast til að ganga í raðir nýs félags þegar tíminn kemur."

Athugasemdir
banner
banner
banner