
Gary Lineker, þáttastjórnandi á BBC, var með Laura Georges og Mauricio Pochettino að kryfja leik Frakklands og Póllands í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar, en hann rak augun í sérstaka vítaspyrnutækni Robert Lewandowski.
Frakkar voru þremur mörkum yfir þegar Dayot Upamecano handlék knöttinn innan teigs seint í uppbótartíma síðari hálfleiks.
Lewandowski fór á punktinn en Hugo Lloris sá við honum. Pólski framherjinn tók hikandi hlaup að punktinum áður en hann skaut og nældi sér í aðra vítaspyrnu þar sem Lloris var kominn af línunni.
Framherjinn skoraði í annarri tilraun, með nákvæmlega sömu vítaspyrnutækni. Lloris fór af línunni í báðum tilraunum en það skipti auðvitað engu máli í seinna skiptið þar sem Lewandowski skoraði.
Lineker furðaði sig á þessari tækni og telur það líklegt að Lewandowski geri þetta viljandi til þess að fá markverði af línunni.
„Þessi tækni sem Lewandowski notaði furðaði okkur. Það var hluti af mér sem hugsaði hvort hann væri viljandi að reyna að fá Lloris af línunni, þannig ef hann klúðraði spyrnunni þá fengi hann aðra tilraun, en kannski er ég að ofhugsa þetta. Þetta gerðist samt tvisvar og í bæði skiptin fór Lloris af línunni,“ sagði Lineker á BBC.
Þessi tækni kom Mauricio Pochettino, fyrrum stjóra Tottenham og Paris Saint-Germain, ekki á óvart og benti á að þetta sé tækni sem Lewandowski hefur notast við hjá Barcelona.
„Kannski. Þetta er vítaspyrnutæknin sem hann notar og hefur gert hjá Barcelona,“ sagði Pochettino.
Hægt er að sjá vítaspyrnuna hér fyrir neðan.
Vítaspyrna dæmt á Frakka - Lewandowski tekur arfa slaka spyrnu sem er varinn - vítaspyrnuna þarf að endurtaka - hvað gerir hann næst? pic.twitter.com/CLFvBEjrdL
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) December 4, 2022
Lewandowski nær að skora úr seinni spyrnunni pic.twitter.com/mATZgHcPmy
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) December 4, 2022
Athugasemdir