Cristiano Ronaldo snéri aftur til Manchester United lok sumargluggans á síðasta ári við mikinn fögnuðu stuðningsmanna félagsins en það gafst einnig tækifæri á að fá hann árið 2018.
Jose Mourinho var stjóri United í tvö og hálft ár en var látinn fara í desember árið 2018.
Jim White hjá talkSPORT ræddi um tíma Mourinho hjá United og þegar hann fékk tækifærið til þess að fá Ronaldo til félagsins árið 2018 en hafnaði því.
Ronaldo var að yfirgefa Real Madrid og var möguleiki á því að hann myndi semja við United en Mourinho kom í veg fyrir það. Juventus keypti Ronaldo og þremur árum síðar snéri hann aftur til United undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.
„Í gegnum árin var endurkoma Cristiano Ronaldo til Manchester United mikið rædd. Það hefði getað gerst þegar hann ákvað að fara frá Real Madrid og var enn í fullu fjöri en það var ekki hægt því Jose Mourinho gerði öllum ljóst fyrir að það væru aðrir hlutir í forgangi," sagði White á talkSPORT.
Mourinho og Ronaldo unnu saman hjá Real Madrid frá 2010 til 2013 en spænskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um stirrt samband þeirra. Virðingin var þó alltaf gagnkvæm þó sambandið hafi ekki alltaf blómstrað.
Athugasemdir