„Mér líður mjög vel með þetta, er vel peppaður fyrir þessu," segir Róbert Frosti Þorkelsson sem gekk á dögunum í raðir GAIS í Svíþjóð frá Stjörnunni.
Hann skrifaði undir fimm ára samning í Gautaborg. Róbert Frosti er 19 ára miðjumaður sem lék í nóvember sinn fyrsta leik með U21 landsliðinu.
Hann kom við sögu í öllum 27 leikjum Stjörnunnar í Bestu deildinni á síðasta tímabili, skoraði tvö mörk og lagði upp fimm. GAIS endaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
Hann skrifaði undir fimm ára samning í Gautaborg. Róbert Frosti er 19 ára miðjumaður sem lék í nóvember sinn fyrsta leik með U21 landsliðinu.
Hann kom við sögu í öllum 27 leikjum Stjörnunnar í Bestu deildinni á síðasta tímabili, skoraði tvö mörk og lagði upp fimm. GAIS endaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.
„Ég heyrði af áhuga þeirra eftir tímabil. Þeir voru þá búnir að fylgjast með í einhvern tíma. Þessi samningamál tóku samt óþarflega langan tíma," segir Róbert en það voru fleiri möguleikar í boði fyrir hann.
„Já, það voru einhverjir fleiri möguleikir í boði. En eftir að hafa skoðað GAIS og kynnt mér klúbbinn, þá vildi ég ekkert fara annað. Gamlir íslenskir leikmenn GAIS tala líka mjög vel um klúbbinn og allt í kringum hann. Ég hef trú á að þetta sé rétt skref fyrir mig."
Muna allir eftir Eyjó Héðins og Ásgeir Börkur minnisstæður
En hvað geturðu sagt okkur um þetta félag sem þú ert að fara til?
„GAIS er eitt af elstu félögum Svíþjóðar. Eiga ótrúlega sterka og ástríðufulla stuðningsmenn sem styðja þá sama hvernig gengur. Þeir vilja spila fótbolta og komu á óvart í fyrra með að lenda í sjött sæti sænsku deildarinnar. Þeir hafa verið nett jó jó lið í gegnum árin er mér sagt."
Það hafa Íslendingar spilað fyrir GAIS í gegnum árin; Jóhann Birnir Guðmundsson var fyrstur árið 2006, svo komu Eyjólfur Héðinsson, Hallgrímur Jónasson, Guðmundur Reynir Gunnarsson og Guðjón Baldvinsson þangað á svipuðum tíma. Ásgeir Börkur Ásgeirsson var þarna frá 2014 til 2015 og síðasti Íslendingurinn til að spila þarna er Arnar Bragi Bergsson. Núna kemur svo Róbert Frosti inn á góðum tíma hjá félaginu.
„Það hafa nokkrir íslendingar spilað hérna. Muna allir eftir Eyjó Héðins hérna og síðan er Ásgeir Börkur þeim enn minnistæður," segir Róbert Frosti.
Hann stefnir auðvitað á það að spila sem mest í nýju félagi.
„Ég held það sé bara á mína ábyrgð að fá að spila sem mest. Þeir lögðu samt mikla áherslu á að gera fimm ára samning og munu gefa sér tíma í að bæta leik minn þar sem þarf að bæta hann. En ég er kominn til að spila sem mest og vonast til þess að geta haft einhver áhrif strax."
Treysti því að þeir geymi númerið
Róbert Frosti segir að það hafi ekki verið planið að fara út strax, en þegar þetta tækifæri hafi boðist þá hafi verið of erfitt að neita því.
„Það var ekkert á planinu að fara út fyrr en eftir næsta tímabil. En þetta spilaðist þannig að mér fannst ég þurfa að fara og þetta tækifæri og var eiginlega of gott til að segja nei við. Geggjaður klúbbur og flott borg," segir Róbert.
Það er auðvitað erfitt að yfirgefa uppeldisfélagið en hann mun spila aftur með Stjörnunni einn daginn. Það er klárt mál.
..Jú, ég treysti því að þeiri geymi númerið mitt þar til ég kem aftur. Ég hef búð í Garðabæ alla mína ævi og get ekki séð mig spila annars staðar á Íslandi," segir Róbert Frosti en hver var hans uppáhalds minning með Stjörnunni?
„Fyrsti Evrópuleikurinn klárlega," segir hann að lokum en núna hefst nýr og áhugaverður kafli á ferli þessa efnilega leikmanns.
Athugasemdir