Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 06. apríl 2020 08:00
Magnús Valur Böðvarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ísland 'til I die
Magnús Valur Böðvarsson
Magnús Valur Böðvarsson
Greinarhöfundur að störfum á KR velli.
Greinarhöfundur að störfum á KR velli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sunderland.
Sunderland.
Mynd: Getty Images
Jónas Gestur í  Ólafsvík.
Jónas Gestur í Ólafsvík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslendingar þakka fyrir sig á HM í Rússlandi.
Íslendingar þakka fyrir sig á HM í Rússlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Maður áttar sig ekki oft á því hvað maður á eða hefur haft fyrr en það hefur verið tekið frá manni. Þó það sé kannski tímabundið, þá áttar maður sig á því hvað fótbolti og almennt íþróttir í heild sinni gerir fyrir hinn almenna mann.

Í íþróttafríinu hefur maður notað tímann í að horfa á þætti eins og 'The English game' og 'Sunderland 'til I die'. Sá fyrrnefndi gerist á upphafstímum fótboltans þar sem verkamaðurinn er að ryðja sér til rúms þar sem yfirstéttarfólkið hafði einungis notið hans og sýnir í raun og veru nýja von fyrir hinn almenna verkamann.

Horfandi á hinn þáttinn 'Sunderland 'til I die' sér maður ástríðu fólksins í borginni fyrir fótbolta og mikilvægi þess. Vinnandi fólk sem virðist fátt hafa til að lifa fyrir nema ástríðuna fyrir fótboltanum og vonast til að sjá liðinu sínu fagna velgengni sem hefur ekki verið uppá teningnum seinustu árin.

Þetta minnir mig talsvert á því þegar maður var ungur að árum, sparkandi í bolta og æfa af krafti og alltaf var smáborgarháttur í manni, haldandi að aldrei mundi Ísland geta spilað á stóru móti eins og HM eða EM.

Samt elskaði maður alltaf að fara á völlinn og hvetja sína menn nánast vitandi til þess að maður væri að fara upplifa vonbrigði og enn eitt tapið. Alltaf komu þó þær stundir þar sem við unnum stóra og óvænta sigra sem fylti mann stolti og von þó að maður upplifði fleiri vonbrigðarstundir þá var þetta nauðsynlegur hluti til að halda í manni von og trú, eiga sínar hetjur og þess háttar.

Knattspyrnuferill minn náði nú engum hæðum og einkenndist af neðri deildar fótbolta sem hefur gert samt svo mikið. Maður fór og spilaði í litlum bæjarfélögum þar sem nær hver einasti bæjarbúi mætti á leiki. Mætti bæjarhetjunum. Öll lið áttu sína stórstjörnu og voru þetta leikirnir sem mér þótti lang skemmtilegast að spila. Að spila á móti Jónasi Gesti í Ólafsvík, Pétri Geir í Bolungarvík og Gunnari Valgeirs á Höfn svo fáir séu nefndir, er og verður alltaf ógleymanlegt og lífgar algjörlega uppá tilveruna hjá fólki sérstaklega í þessum minni bæjarfélögum. Á öllum þessum stöðum lifðu menn í von og trú að vinna og komast hærra. Styðja sína menn í voninni þó oft hafið vonbrigðin verið ofar.

Árangur Íslands í handbolta gaf manni alltaf smá von. Þar voru margar ánægjustundir en samt sem áður náðum við aldrei í verðlaun. Það munaði samt svo litlu. Þetta er hægt, er hlutur sem maður hugsaði. Silfrið á ólympíuleiknum í Peking 2008, líklega stærsta stund í íslenskri íþróttasögu.

Ég held ég hafi aldrei verið jafn stoltur og að vera Íslendingur á þeirri stundu á meðan sama tíma vorum við að tapa fyrir Liechtenstein í fótboltanum. Botninum var náð og hlutirnir gætu bara farið uppá við. Á sama tíma voru stelpurnar okkar að tryggja sig inná sitt fyrsta stórmót. Þetta er allt hægt. Hættum að hugsa sem smá þjóð.

Ég held að silfrið á ólympíuleikunum hafi kveikt neista í gullkynslóðina okkar í fótboltanum, gullkynslóðina í körfuboltanum, fimleikastelpurnar okkar og marga fleiri. Að komast í hreinan úrslitaleik um að komast á HM 2014. Vonin lifði, en alltaf í undirmeðvitundinni var þessi litli djöfull sem kvíslaði í eyrað á manni að maður ætti ekki séns. Við vorum ennþá í smáborgarahættinum en þó að við höfðum tapað fyrir gríðarlega sterku liði Króatíu þá var samt ennþá smá von. Hvað ef?

Samt hafði maður ekki mikla trú á að vera í tveim efstu sætunum verandi í riðli með Hollandi, Tékklandi og Tyrklandi. Kannski umspil en ekki beint á EM. En trúin flytur fjöll. Strákarnir kláruðu verkefnið. 2 sigrar á Hollandi, eitthvað sem ég hélt ég mundi aldrei upplifa á minni lífsleið var klárað.

Hvað hafði þetta í för með sér? Jú samstaða. Samstaða allrar íslenskru þjóðarinnar. Ég veit ekki um einn einasta mann sem horfði ekki á leiki Íslands á EM og HM. Ég náði meira segja að draga bróðir minn sem hefur ekki minnstan áhuga á fótbolta til koma með mér á HM í Rússlandi. Hann var allur inn.

Þjóðarstoltið og gleðin sem fylgdi þessu. Þetta var svo miklu meira en bara fótbolti. Þetta var samstaða okkar allra sem þjóð. Allir voru tilbúnir að eignast treyju, fljúga erlendis og styðja land og þjóð og mæta á leikina. Það sem þetta gerði fyrir andlega líðan manns.

Fólk erlendis á erfitt með að trúa því hvernig 340.000 manna þjóð gat gert þetta allt. Þjóð sem er á stærð við borgina Coventry á Englandi og Sunderland sem álíka fjölmenn og höfuðborgarsvæðið. Ég held menn geri sér ekki alveg fulla grein fyrir hvað það er mikið af fólki sem lifir fyrir þessa trú og von. Trú á að liðið þeirra nái árangri og fylli fólk af þessum gleðistundum.

Það er því gríðarlega mikilvægt á þessum erfiðu tímum að standa með íþróttafólkinu okkar og íþróttafélögunum á meðan þessu erfiða ástandi stendur yfir. Því íþróttirnar gefa okkur svo gríðarlega mikið.Trú, von, stolt og viljan til að halda áfram. Höldum áfram samstöðu okkur sem þjóð og sýnum úr hvað við erum. Við erum jú öll Ísland.

Virðingarfyllst
Magnús Valur Böðvarsson
Grasvallarfræðingur og Vallarstjóri hjá KR
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner