Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   fim 06. maí 2021 13:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 1. sæti
FH er spáð sigri í Lengjudeildinni
FH er spáð sigri í Lengjudeildinni
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Erna Guðrún fyrirliði býr yfir mikilli reynslu
Erna Guðrún fyrirliði býr yfir mikilli reynslu
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Elísa Lana er afar efnilegur leikmaður
Elísa Lana er afar efnilegur leikmaður
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. FH
2. KR
3. Afturelding
4. Grótta
5. Haukar
6. Augnablik
7. Víkingur
8. HK
9. ÍA
10. Grindavík

Lokastaða í fyrra: FH var í 9. sæti þegar keppni í Pepsi Max-deild kvenna var hætt.

Þjálfarar: Guðni Eiríksson þjálfar FH. Guðni hefur verið með liðið frá haustinu 2018 og stóri bróðir hans, Hlynur Svan Eiríksson, er nú tekinn við sem aðstoðarþjálfari. Saman mynda þeir öflugt teymi.

Styrkleikar: Liðið er í mjög góðu formi og hefur verið að spila beittan sóknarbolta á undirbúningstímabilinu. Auk sterkra heimakvenna hafa þrír öflugir erlendir leikmenn gengið til liðs við FH og munar um minna.

Veikleikar: Það hafa orðið gríðarlegar mannabreytingar á milli ára og FH stillir upp gjörbreyttu liði frá síðasta tímabili. Það gæti tekið tíma fyrir leikmenn að læra inn á hvora aðra og fyrir þjálfarateymið að finna sitt sterkasta lið.

Lykilmenn: Erna Guðrún Magnúsdóttir, Katelin Talbert, Selma Dögg Björgvinsdóttir

Gaman að fylgjast með: Sóknarmaðurinn efnilegi Elísa Lana Sigurjónsdóttir (f. 2005) er ótrúlega spennandi leikmaður. Hefur hraða, tækni og áræðni og fær eflaust stórt hlutverk hjá FH í sumar.

Við heyrðum í Guðna þjálfara og fórum yfir spánna og fótboltasumarið sem er framundan:

Kemur þér á óvart að ykkur sé spáð sigri í deildinni?
„Það er bara ánægjulegt að sjá að andstæðingurinn telji FH liðið vera öflugan mótherja. Það kemur kannski ekkert endilega á óvart að vera spáð fyrsta sætinu miðað við undirbúningstímabilið og umræðuna um liðið að undanförnu. Löngunin í að komast strax upp aftur er mun sterkari en einhver pressutilfinning.”

Hver eru markmið liðsins í sumar?

„Að sjálfsögðu viljum við fara beinustu leið upp aftur eftir heldur leiðinlegan endi á síðasta tímabili. Við þjálfarar viljum sjá stíganda í leik liðsins og að þróun eigi sér stað í spilamennsku þess frá undirbúningstímabili. FH vill spila fótbolta sem gaman er að horfa á.“

Hvernig hefur undirbúningstímabilið gengið?

„Undirbúningstímabilið hefur gengið mjög vel. Leikmenn hafa lagt mikið á sig og mæta því til leiks í mjög góðu standi. Ég myndi segja að tíminn hafi verið vel nýttur og við reynt að gera það besta úr stöðunni hverju sinni.“

Er liðið mikið breytt frá því í fyrra?

„Það hafa orðið gríðarlegar breytingar á liðinu frá því í fyrra. Byrjunarlið síðasta tímabils er nánast allt horfið og því má segja að nýtt FH lið mæti til leiks núna. Það er alls ekki sjálfgefið að svo stórar breytingar gangi hratt fyrir sig og að leikmenn finni sameiginlegan takt inn á vellinum. Og í ofanálag má ekki gleyma þreyttu covid undirbúningstímabili. Stundum finnst mér eins og þetta vanti í umræðuna þegar verið er að tala um FH liðið.“

Hvernig áttu von á að deildin spilist í sumar og hvernig sérðu toppbaráttuna fyrir þér?

„Deildin í ár hefur alla burði til að vera mjög skemmtileg. Liðið hafa verið dugleg að styrkja sig með innlendum og erlendum leikmönnum sem munu klárlega setja svip sinn á deildina. Ekkert lið á eftir að stinga af og þetta gæti orðið barátta allt að 5 liða um að komast upp. FH ætlar sér að vera eitt af þessum liðum en hver hin verða er ómögulegt að segja til um.“

Komnar:
Elín Björg Símonardóttir frá Haukum
Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir frá Fylki
Esther Rós Arnarsdóttir frá Breiðablik
Halla Helgadóttir frá Selfossi
Hildur María Jónasdóttir frá Augnablik
Sigrún Ella Einarsdóttir
Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir frá Hamar
Brittney Lawrence frá USA
Tarvia Natalia Phillip frá USA
Katelin Talbert frá USA

Farnar:
Telma Ívarsdóttir í Breiðablik
Taylor Sekyra
Valgerður Valsdóttir í Fylki
Sigríður Lára Garðarsdóttir í Val
Andrea Mist Pálsdóttir til Svíþjóðar
Madison Gonzalez
Helena Ósk Hálfdanardóttir í Fylki
Phonetia Browne
Birta Georgsdóttir í Breiðablik
Aníta Dögg Guðmundsdóttir í Víking
Birta Stefánsdóttir
Eva Núra Abrahamsdóttir í Selfoss
Úlfa Dís Úlfarsdóttir í Stjörnuna

Fyrstu leikir FH:
6. maí Haukar - FH
12. maí FH - Grótta
22. maí Augnablik - FH
Athugasemdir
banner
banner