Cristiano Ronaldo, einn besti fótboltamaður sögunnar, mun mæta á Laugardalsvöll síðar í þessum mánuði.
Cristiano Ronaldo, markahæsti landsliðsmaður í sögunni, er í portúgalska hópnum sem mætir Íslandi í mikilvægum leik í undankeppni EM.
Ronaldo, sem er í dag leikmaður Al-Nassr í Sádí-Arabíu, mun mögulega spila sinn 200. landsleik á Laugardalsvellinum.
Age Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, var spurður að því af Fréttamanni Fótbolta.net í dag hvort hann væri spenntur að taka á móti Ronaldo hér á Íslandi.
„Já, ég þarf að hefna mín á Cristiano Ronaldo," sagði Hareide léttur.
„Ég man þegar ég var stjóri Malmö og við spiluðum gegn honum þegar hann var í Real Madrid. Við spiluðum gegn þeim í Meistaradeildinni á heimavelli og hann skoraði. Allir vita að hann skorar mörk," sagði Norðmaðurinn en Ronaldo skoraði bæði mörk Real Madrid í 0-2 sigri í þeim leik.
„Það er mikilvægt að tala ekki bara um Ronaldo. Við þurfum að einbeita okkur að okkar liði og leggja mikið á okkur."
Hareide vonast til að fá storm á meðan leik stendur. „Það mun henta okkur vel. Ég held að hann (Ronaldo) sé ekki hrifinn af loftslaginu hérna, hann er vanari veðrinu í Sádí-Arabíu."
Það er ekki ólíklegt að það verði vont veður í Laugardalnum þann 20. júní, allavega ekki ef við miðum við það hvernig sumarið hefur verið hingað til.
Athugasemdir