Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 06. október 2022 16:45
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Þegar fréttist að hugur Arnars leitaði suður var stærðfræðin ekki flókin fyrir KA
Sævar Pétursson og Hallgrímur Jónasson
Sævar Pétursson og Hallgrímur Jónasson
Mynd: Fótbolti.net - Tom
Hallgrímur og Arnar
Hallgrímur og Arnar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í síðasta mánuði var greint frá því að Arnar Grétarsson myndi ekki klára tímabilið sem þjálfari KA. Aðstoðarmaður Arnars, Hallgrímur Jónasson, var ráðinn aðalþjálfari. Arnar er með munnlegt samkomulag við annað félag og hefur verið fjallað um að það félag sé Valur. Valur hefur þó ekki tilkynnt hver tekur við liðinu af Ólafi Jóhannessyni sem hefur fengið þau skilaboð að hann verði ekki áfram þjálfari liðsins eftir tímabilið.

Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og spurði hann út í viðskilnaðinn við Arnar Grétarsson.

Var KA ósátt við félagið sem ræddi við Arnar þegar hann var enn þjálfari KA? Fékk félagið samþykki frá KA að fá að ræða við þjálfara KA?

„Nei og nei. Við vorum ekki ósáttir við það. Fótboltinn er þannig að þegar bæði leikmaður og þjálfari eiga sex mánuði eftir af sínum samningum þá mega önnur félög heyra í viðkomandi aðilum. Við, sem félag, höfum alltaf hugsað einna og jafnvel tvo leiki fram í tímann í okkar vinnu. Við erum með tveggja til þriggja ára plan sem við erum að vinna eftir."

„Það var alltaf í okkar plönum að Hallgrímur myndi taka við liðinu, það var spurning hvort það yrði núna í haust eða næsta haust. Svo fáum við fréttir af því að hugur Arnars sé farinn að leita suður. Þá var stærðfræðin ekki flókin fyrir okkur, að stökkva bara til og landa Hadda sem hefur unnið frábært starf fyrir okkur og var alltaf okkar framtíðar kandídat til að halda áfram með félagið."

„Að því sögðu hefur Addi komið norður og gert frábæra hluti fyrir okkur, lyft félaginu og 'standardinum' í kringum það. Þetta var bara gott 'move' fyrir báða aðila held ég."


Þarf félagið sem ræðir við Arnar ekki að láta KA vita?

„Nei, tæknilega séð ekki. Þetta er atvinnufrelsi sem þú mátt hafa sem starfsmaður, að þegar það er ákveðinn tími eftir af þínum samningi þá máttu ræða við hvern sem er. Þegar félög gera svona þá oft gefa menn 'heads up', láta vita, til að fyrirbyggja einhvern misskilning eða leiðindi sem geta myndast."

„Að því sögðu þá erum við bara þakklát fyrir starf Arnars hér á Akureyri og það sem hann hefur gert fyrir okkur. Á sama tíma erum við himinlifandi með að vera búin að skuldbinda Hadda til þess að vinna fyrir okkur næstu ár,"
sagði Sævar.
Athugasemdir
banner
banner
banner