
„Það er leiðinlegt að tapa seinasta leik en þegar upp er staðið þá erum við Íslandsmeistarar. Þetta er geggjað og ég er mjög stolt af liðinu. Mjög sátt.“ sagði Bryndís Arna Níelsdóttir markahæsti leikmaður tímabilsins og jafnframt besti leikmaður tímabilsins samkvæmt leikmönnum deildarinnar.
Lestu um leikinn: Valur 0 - 1 Breiðablik
Leikurinn í kvöld var leikur tveggja hálfleika en Bryndísi fannst fyrri hálfleikurinn frekar lokaður.
„Mér fannst leikurinn lokaður í fyrri hálfleik. Það var lítið um færi í þessum leik en þær skoruðu geggjað mark. Við reyndum að koma okkur inn í leikinn undir lokin en það gekk ekki að þessu sinni.“
Næsti leikur Vals er gegn SKN St. Poelten í Meistaradeildinni en Bryndís er bjartsýn á það að ná í góð úrslit gegn þeim.
„Við erum byrjaðar að pæla í þeim leik. Þær eru með gott lið en við líka. Ég hef fulla trú á því að við getum gert eitthvað í þessum leikjum og komist í riðlakeppnina.“
Bryndís hefur átt stórkostlegt tímabil í sumar. Valin í landsliðið, markahæst og valin besti leikmaður deildarinnar af leikmönnum deildarinnar.
„Ég held að ég get ekki sagt neitt slæmt um þetta tímabil. Ég er bara mjög stolt af mér og sátt með þetta. Þessi heiður (að vera valin best af leikmönnum deildarinnar) og að vera markahæst er bara geggjað.“
Bryndís var þá spurð hvort þetta hafi verið markmiðið fyrir tímabilið að vera markahæst og vera valin best af leikmönnum deildarinnar.
„Ég vil alltaf skora mörk og hjálpa liðinu að vinna leiki. Markmiðið fyrir tímabil var bara að vera í stærra hlutverki og hjálpa liðinu að vinna annan titil þannig ég er bara mjög stolta af þessu tímabili.“
Bryndís var þá spurð að lokum hvort hún verði leikmaður Vals á næsta tímabili.
„Það kemur allt í ljós á næstu vikum og mánuðum.“