Van Dijk og Salah til Al-Ahli? - United vill fá Pau Torres - Ronaldo segir Al-Nassr að gera tilboð í De Bruyne - Alonso arftaki Ten Hag?
   sun 06. október 2024 20:40
Ívan Guðjón Baldursson
Fyrsta tapið hjá Midtjylland - Fredrikstad í undanúrslit
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðustu leikjum dagsins er að ljúka víðsvegar um Evrópu og hafa allir Íslendingar lokið leikjum sínum í erlendum deildum, að undanskildum Alberti Guðmundssyni og Orra Stein Óskarssyni sem eru að klára leiki með Fiorentina og Real Sociedad á Ítalíu og Spáni.

Í efstu deild danska boltans tapaði topplið Midtjylland 2-0 á útivelli gegn Bröndby og stóð Elías Rafn Ólafsson á milli stanganna. Heimamenn í liði Bröndby voru betri og verðskulduðu sigurinn en það var lítið sem Elías gat gert til að koma í veg fyrir fyrsta tap liðsins á deildartímabilinu.

Midtjylland er með 24 stig eftir 11 umferðir, þremur stigum fyrir ofan FC Kaupmannahöfn sem gerði jafntefli í dag. Rúnar Alex Rúnarsson er varamarkvörður hjá FCK sem gerði 2-2 jafntefli á útivelli gegn Silkeborg.

Andri Lucas Guðjohnsen fékk þá að spila síðustu mínúturnar í 1-1 jafntefli Gent gegn St. Truiden í efstu deild í Belgíu, en þar er Gent í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig eftir 10 umferðir. Sverrir Ingi Ingason lék hins vegar allan leikinn er Panathinaikos gerði markalaust jafntefli við Olympiakos í stórleik í gríska boltanum. Þar er Panathinaikos aðeins komið með 9 stig eftir 7 umferðir, en Hörður Björgvin Magnússon er enn fjarverandi vegna slæmra hnémeiðsla.

Í 8-liða úrslitum norska bikarsins bar Júlíus Magnússon fyrirliðabandið er Fredrikstad sló Vålerenga úr leik eftir framlengingu.

Fredrikstad mætir KFUM Oslo í undanúrslitum í lok mánaðar.

Í næstefstu deild í Noregi unnu liðsfélagar Róberts Orra Þorkelssonar mikilvægan sigur á útivelli gegn Egersund í baráttunni um sæti í efstu deild, en Róbert Orri er fjarverandi vegna meiðsla. Birkir Bjarnason var á sama tíma ónotaður varamaður í 1-1 jafntefli Brescia gegn Mantova í næstefstu deild á Ítalíu. Brescia er þar með komið í 13 stig eftir 8 umferðir.

Að lokum kom Davíð Kristján Ólafsson við sögu í góðum sigri Cracovia í efstu deild pólska boltans. Cracovia er að gera flotta hluti og er með 23 stig eftir 11 umferðir, tveimur stigum á eftir toppliði Lech Poznan.

Brondby 2 - 0 Midtjylland

Silkeborg 2 - 2 Kaupmannahöfn

St. Truiden 1 - 1 Gent

Panathinaikos 0 - 0 Olympiakos

Valerenga 0 - 1 Fredrikstad

Egersund 0 - 1 Kongsvinger

Mantova 1 - 1 Brescia

Slask Wroclaw 2 - 4 Cracovia

Athugasemdir
banner
banner