Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 07. febrúar 2023 15:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stuðningsmenn Leeds svara: Rétt að reka Marsch og hver á að taka við?
Jesse Marsch.
Jesse Marsch.
Mynd: EPA
Carlos Corberan hefur verið mest orðaður við starfið.
Carlos Corberan hefur verið mest orðaður við starfið.
Mynd: Getty Images
Það var alltaf að fara að vera erfitt að taka við af Bielsa.
Það var alltaf að fara að vera erfitt að taka við af Bielsa.
Mynd: Getty Images
Brenden Aaronson hefur lítið getað undanfarna mánuði.
Brenden Aaronson hefur lítið getað undanfarna mánuði.
Mynd: EPA
Andoni Iraola hefur verið orðaður við starfið.
Andoni Iraola hefur verið orðaður við starfið.
Mynd: Getty Images
Leeds fagnar marki á tímabilinu.
Leeds fagnar marki á tímabilinu.
Mynd: Getty Images
Marsch stýrði Leeds í tæpt ár.
Marsch stýrði Leeds í tæpt ár.
Mynd: EPA
Jóhann Ingi Hafþórsson, fréttamaður á Morgunblaðinu, er á meðal álitsgjafa. Hér er hann með Danny Mills, fyrrum leikmanni Leeds.
Jóhann Ingi Hafþórsson, fréttamaður á Morgunblaðinu, er á meðal álitsgjafa. Hér er hann með Danny Mills, fyrrum leikmanni Leeds.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Wilfried Gnonto. Spennandi sóknarmaður.
Wilfried Gnonto. Spennandi sóknarmaður.
Mynd: EPA
Bandaríkjamaðurinn Jesse Marsch var rekinn frá Leeds í gær eftir frekar dapurt gengi að undanförnu þar sem liðið hefur ekki verið að sækja mörg stig.

Marsch entist í tæpt ár í starfinu en hann skilur við Leeds í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Leeds á marga stuðningsmenn hér á landi en Fótbolti.net ákvað að heyra í nokkrum þeirra út af þessari ákvörðun sem var tekin í gær. Settar voru fram fjórar spurningar:

1. Er þetta rétt ákvörðun að þínu mati?

2. Hvernig myndirðu lýsa þessum tíma sem Marsch stýrði liðinu?

3. Hvern viltu sjá taka við liðinu núna? Hvað viltu sjá með nýrri ráðningu?

4. Tímabilið hingað til... hvað hefur farið úrskeiðis og hvað vonastu til að sjá núna seinni hluta tímabilsins?

Agnar Þór Hilmarsson
1. Ákvörðunin er rétt að mínu mati. Almennt er ég ekki hrifinn af því að stjórar séu reknir of snemma, en ég held að flestir séu sammála um að tíminn var kominn. Enginn vill hlusta á fleiri 'þetta er að snúast' ræður frá Jesse. Hann bjargaði starfinu með tveimur sigrum gegn Liverpool og Bournemouth rétt fyrir HM, en það var tímapunktur sem maður reiknaði með að stjórnin myndi nota. Jesse getur ekkert kvartað samt, hann fékk tíma og fullan stuðning á markaðnum - Leeds hefur eytt gríðarlega mikið í leikmenn í undanförnum gluggum.

2. Tíminn undir Jesse er kannski nokkuð sérstakur að því leytinu til að hann tekur við af lifandi goðsögn. Leeds aðdáendur eru gríðarlega tryggir og það getur verið erfitt að ná þeim á sitt band - maður er enn að heyra nafnið hjá Bielsa sungið. Jesse gerði samt ágætlega að mörgu leyti, kom fínt fyrir, var með áhugaverðar pælingar. Margir vilja meina að hann hafi haldið liðinu uppi, en mitt mat er nú það að það féllu ansi mörg úrslit með okkur; leikjadagskráin var fremur hagstæð og ég er 100% viss um að Bielsa hefði klárað þetta. Einnig fannst mér frá fyrsta degi vera of dramatískt Kana yfirbragð á honum. Það flýgur bara ekki í Vestur-Jórvíkurskíri, því miður.

3. Carlos Corberán er klárlega einstaklingur sem ég er spenntur fyrir, samt er maður aðeins of hræddur við reynsluleysið því hans profíll er ekkert ólíkur Jesse. Lítil reynsla en góð reynsla. Hann hefur þó gert það gott með bæði Huddersfield og West Brom í Championship-deildinni. Hann þekkir innviðina en mögulega er of stutt frá hans tíma til dagsins í dag; maður veit náttúrulega ekkert hvernig hann var í metum hjá leikmönnum en þó hefur mikil endurnýjun átt sér stað. Eina sem ég bið um eru engar Big Sam ráðningar eða annað bull, við viljum aðlaðandi fótbolta.

4. Eitthvað hefur verið um meiðsli, eins og gengur og gerist, en við erum sjaldan með sömu fjóra aftast. Varnarleikurinn er mesta vesenið þar sem við höfum skorað þónokkuð. Leikmenn þurfa líka að axla ábyrgð, við höfum kastað frá okkur vel skipulögðum leikjum með fimm mínútna kæruleysi - samanber Aston Villa og West Ham nú síðast. Ég hugsa að við höfum meiri gæði í hópnum en liðin í kringum okkur og við þurfum að þétta varnarleik liðsins í heild í ljósi þess að fremstu menn hafa verið að verjast illa, mikið verr en undir Bielsa. Aðalmálið er þó að Brenden Aaronson, sem er eins og plastpoki í íslensku lægðinni, spili sem minnst meðan við erum að ná stjórn á því.

Annars verð ég mættur á báða leikina gegn 'the scums' til að styðja mína menn í gegnum þessa erfiðu tíma! Við munum lifa þetta af og það er bjart framundan hjá Leeds. Hjá félaginu er frábær eigandi sem er hægt og bítandi að koma sér út og ég efa ekki að klúbburinn verði í góðum höndum.

Árni Þór Birgisson
1. Já, ég tel þetta rétta ákvörðun. Tveir sigrar í 16 leikjum er einfaldlega ekki ásættanlegur árangur.

2. Marsch kom náttúrulega inn þegar við vorum í mjög slæmri stöðu og náði upp baráttu sem dugði til að halda okkur uppi á síðasta tímabili. Fyrir það á hann allt hrós skilið. Þetta tímabil hefur ekki verið nógu gott, spilamennskan heilt yfir ekki góð, og þeir leikir þar sem liðið hefur spilað vel í hefur gengið illa að skora og ná úrslitum. Ég verð ávallt þakklátur Marsch fyrir að halda okkur uppi í fyrra, því ég held að liðið hefði fallið án hans.

3. Carlos Corberán er draumamaðurinn í starfið. Hann þekkir klúbbinn út og inn, enda þjálfaði hann U23 ára lið Leeds þegar Bielsa var við völd og var virkilega vel metinn hjá klúbbnum. Hann er svo búinn að gera frábæra hluti hjá West Brom á þessu tímabili og ég hef tröllatrú á honum. Ég vil sjá stjóra koma inn sem er með langtímaplan sem hægt er að vinna eftir til að koma stöðugleika á liðið sem mun halda því í efra hluta deildarinnar á næstu árum.

4. Spilamennskan hefur heilt yfir verið vel undir meðallagi miðað við getu liðsins, vörnin hefur ekki náð að slípa sig nógu vel saman, það hefur verið ákveðið stefnuleysi fram á við og margir flinkir spilarar sem hafa verið notaðir á rangan hátt miðað við hvernig ég tel að hægt væri að nýta þá. Miðað við stöðuna núna er aðalfókusinn að halda sér uppi. Við erum í bullandi fallbaráttu eins og er og viljum gjarnan koma okkur úr henni. Að ná 4-6 stigum gegn erkifjendunum í Manchester United í næstu tveimur leikjum væri ágætis byrjun að því markmiði.

Guðmundur Marinó Ingvarsson
1. Já, bæði hárrétt og það eina í stöðunni. Tveir sigrar í 17 deildarleikjum er ekki boðlegt. Liðið hefði farið beint niður með Marsch við stjórnvölin út tímabilið.

2. Pirrandi. Marsch er ekki lélegur að öllu leyti. Hann virðist vera góður í að peppa leikmenn en hann virðist vera mjög taktískt lélegur. Það fór endalaust í taugarnar á mér að sjá liðið sækja stanslaust inn á miðjuna og þrengja völlinn. Svo í síðustu leikjum hefur þetta snúist um að koma boltanum á Gnonto og vona að hann geri eitthvað. Þó hann sé flottur þá dugar það bara ákveðið langt.

Svo er það varnarleikurinn. Skyndisóknir gegn Leeds eru veisla. Það er alltaf laus maður og virtist Marsch ekki hafa hugmynd um hvernig á að leysa það.

3. Ég vil fyrst og fremst þjálfara sem veit hvað hann er að gera. Er með skýra sýn og kann að bregðast við þegar plan A virkar ekki. Eitthvað sem Marsch hafði enga burði til að gera.

Svona í ljósi þess að það er ólíklegt að Pep eða Klopp losni þá líst mér best á þá hugmynd að sækja Andoni Iraola frá Rayo Vallecano. Hann fékk fyrirmyndar uppeldi hjá Marcelo Bielsa og lofar góðu. Annars hef ég ekki hundsvit á þessu.

4. Uppleggið hefur farið úrskeiðis. Marsch fékk að versla og leikmenn hafa ekki meiðst í sama mæli og síðustu tvö tímabil. Hópurinn er mun sterkari en í fyrra þó ekki öll kaup hafi heppnast. Þessi leikmannahópur á ekki að vera með aðeins 18 stig úr 20 leikjum. Það geta öll lið bent á klúðruð færi og ömurlega dómara en þegar öllu er á botninn hvolft þá hefur Leeds byrjað flesta leiki einum færri með vanhæfan þjálfara á hliðarlínunni.

Jóhann Ingi Hafþórsson
1. Mér finnst þetta rétt ákvörðun. Mér fannst Marsch aldrei sérlega sannfærandi og það er langt frá því nógu gott að vera í þessari stöðu, miðað við hvað leikmannahópurinn er orðinn sterkur. Ekki unnið leik síðan í nóvember og aðeins tímaspursmál hvenær liðið dettur niður í fallsæti. Marsch er voðalega góður í að tala og heilla fólk sem er fyrir utan félagið, en stuðningsmenn Leeds voru orðnir þreyttir á honum.

2. Ósannfærandi. Vann fáa leiki og þetta small aldrei hjá honum. Þeir leikir sem unnust voru oft tilviljunakenndir. Á hrós skilið fyrir að halda liðinu uppi á síðustu leiktíð, en þar datt mikið fyrir hann. Alls ekki náð að fylgja því eftir og liðið var í einu orði ósannfærandi undir hans stjórn. Fékk aldrei stuðningsmennina alveg með sér í lið, enda gríðarlega erfitt að leysa Marcelo Bielsa af hólmi, sem er enn dáður og dýrkaður.

3. Það sakar ekki að hringja í Mauricio Pochettino og Thomas Tuchel. Fá alvöru mann í þetta, sem getur tekið liðið á næsta stig og upp í efri hluta deildarinnar, til að byrja með. Það væri rómantík í því að fá Bielsa aftur, en það er ekki líklegt. Carlos Corberán, sem var með yngri lið Leeds og er núna að gera geggjaða hluti með WBA, hefur líka verið nefndur til sögunnar. Gæti gengið upp, en þar vantar reynsluna. Fá einhvern úr efstu skúffu, eins og maður segir á slæmri íslensku.

4. Liðið hefur verið brothætt á þessari leiktíð. Bakverðirnir fá enga vernd og auðvelt fyrir andstæðingana að fara upp kantana og gera það sem þeim sýnist. Miðverðirnir ekki nógu góðir í teignum á sama tíma og allt of auðvelt fyrir lið að skora. Liðið saknar Kalvin Phillips, þótt Tyler Adams hafi verið einn besti leikmaður liðsins til þessa. Í sóknarleiknum hefur þurft að treysta á einstaklingsframtök hjá ungum leikmönnum eins og Wilfried Gnonto (sem er ógeðslega góður), Cresencio Summerville og Rodrigo. Án þeirra væri liðið í verri stöðu en Southampton. Brenden Aaronson byrjaði vel en hefur ekkert getað í 3-4 mánuði.

Ég vil sjá liðið komast á skrið það sem eftir lifir tímabils, því þessi leikmannahópur hefur alla burði til að vinna leiki í þessari deild og halda sér uppi með þægilegum hætti. Með réttum stjóra er ég sannfærður um að sú verði raunin.

Sjá einnig:
Máni vill stjóraskipti hjá Leeds - „Liðið hefur enga hugmynd“
Enski boltinn - Staðan hjá Liverpool mikið áhyggjuefni
Athugasemdir
banner
banner