Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   þri 07. maí 2013 18:00
Gísli Gíslason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hallærislegt hallæri?
Gísli Gíslason
Gísli Gíslason
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sian Massey er meðal fremstu aðstoðardómara Englands.
Sian Massey er meðal fremstu aðstoðardómara Englands.
Mynd: Getty Images
Guðrún Fema dómari að störfum.
Guðrún Fema dómari að störfum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Twitter
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samningar KSÍ og knattspyrnudómara um greiðslur fyrir framlag dómaranna hafa vakið athygli fjölmiðla og almennings. Því er haldið fram að konur séu settar skör lægra en karlar í launatöflu dómara, sem ekki standist nein jafnréttisviðhorf. Meira að segja hafa borist kveðjur úr röðum atvinnustjórnmálamanna með kröfum um breytingar á slíku „hallærisfyrirkomulagi“ og það strax. Efni standa til að fara áeinum orðum um málið.

Innan vébanda KSÍ eru starfandi alls 156 héraðs- og landsdómarar í knattspyrnu, þar af 10 konur. Fjöldi leikja á vegum KSÍ var um 5.600 á árinu 2012 og KSÍ tilnefndi á því ári dómara og tvo aðstoðardómara í 3.782 leiki. Fæstir átta sig á þessu umfangi og því eilífðarverkefni að tryggja nýliðun í dómarastéttinni, þar með talið að fjölga konum sem taka að sér dómarastörf. Fæstir átta sig heldur á því að í þeim tilvikum sem KSÍ tilnefnir dómara í leiki bera félögin engan kostnað af launum og ferðakostnaði. Samanlagður kostnaður KSÍ vegna dómaramála er um 100 milljónir króna á ári.

Til viðbótar þessu er í gangi metnaðarfullt og árangursríkt kerfi hjá KSÍ við menntun og endurmenntun dómara. Þá eru gæði dómara metin af um 60 manna eftirlitsteymi og sú aðferð gegnir lykilhlutverki við að auka gæði dómsgæslunnar. Allt hefur þetta skilað árangri á síðustu árum en af sjálfu leiðir að sú viðleitni er viðvarandi að fá nýja dómara og auka gæði dómgæslu. Þess vegna er knattspyrnuhreyfingunni gríðarlega mikilvægt að starf KSÍ og félaganna að dómaramálum þróist áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.

Samningar KSÍ og dómara
Öllum er ljóst að fótboltaleikir verða ekki leiknir án dómara. Með fjölgun leikja, auknum hraða og hörku reynir í auknum mæli á hæfni dómarateymisins. Kröfur aukast og samið er um sanngjarna þóknun fyrir verkin. Gerðar eru til dæmis kröfur um líkamlegt atgervi og gott heilsufar og því eru dómarar ekki síður íþróttamenn en starfsmenn leiksins. Sömu kröfur eru í þessum efnum til karla og kvenna.

Í samningi dómara og KSÍ til þriggja ára eru greiðslur fyrir dómarastörf flokkaðar eftir erfiðleikastigi og taka mið af hraða og ákefð leiksins. Þetta var sameiginleg niðurstaða og sama fyrirkomulag gildir hvort heldur karlar eða konur eiga í hlut! Dómaragreiðslur eru með öðrum orðum óháðar kynferði, eins og þekkist um allan heim. Umræða á forsendum jafnréttis og „hallærissjónarmiða“ byggist því á að jafna eigi laun dómara án tillits til eðlis verkefnanna. Slíkt á að mínu mati ekkert skylt við jafnrétti og óhætt er að fullyrða að leikmenn, hvort heldur eru karlar eða konur í efstu deild eða öðrum deildum, velta nákvæmlega ekkert vöngum yfir þóknun dómarateymisins.

Hérlendis eru 94% dómara karlar og því er fyrst og fremst verið að leita jöfnuðar í launum þeirra. Víða erlendis, þar sem knattspyrna kvenna er stunduð af kappi, skipa konur líka dómarateymin. Ef sú ákjósanlega staða væri uppi á Íslandi liti dæmið út á annan veg og eðlilegt væri að karla og konur, sem dæmdu í efstu deild kvenna, væru jafnsett í launum.

Dæmi um tækifæri kvenna í dómgæslu!
Hér er gráupplagt að nefna árangur ensku konunnar Sian Massey. Aðdáendur enska boltans hafa væntanlega tekið eftir því að skörugleg ung kona birtist sífellt oftar á skjánum í hlutverki aðstoðardómara í stærstu leikjum úrvalsdeildarinnar (nú síðast í leik Manchester Utd. og Chelsea). Sian hefur af dæmafáum dugnaði unnið sig upp í gegnum allt ferli enskrar dómgæslu til að komast í efsta gæðaflokk aðstoðardómara. Hún er nú meðal fremstu aðstoðardómara í deildinni.

Enskir dómarar fá bónusgreiðslur í samræmi við stöðu sína á styrkleikalista sem ræðst af mati eftirlitsmanna og dómaranefndar. Þannig fær Sian hærri greiðslur fyrir störf sín í ensku úrvalsdeildinni en flestir (karlkyns) kollegar hennar, enda er hún talin standa þeim framar í faginu. Sian starfar hins vegar lítið sem aðstoðardómari í lægri deildunum og kvennadeildinni í Englandi (þar sem greiðslur eru mun lægri en í úrvalsdeildinni), enda er þörf á hennar kröftum meðal þeirra bestu.

Sian er líka aðaldómari í kvennadeildinni og hátt skrifuð sem slík á lista þeirra alþjóðadómara sem dæma munu í úrslitakeppni Evrópumóts kvennalandsliða í Svíþjóð nú í sumar þar sem frábært íslenskt kvennalandslið verður á meðal þátttökuþjóða. Og þegar talið berst að kvennalandsliðinu þá skal því haldið til haga að það hefur varla fallið af himnum ofan heldur fyrir gott starf knattspyrnuhreyfingarinnar og þeirra sem ötullega hafa unnið að framgangi knattspyrnu kvenna.

Hver eru verkefnin varðandi dómara?
Umfram allt er það verkefni KSÍ að fjölga konum sem tilbúnar eru að taka að sér dómarstörf. Konur eiga greiða leið í gegnum uppeldiskerfi KSÍ á sviði dómgæslunnar og tækifærin sem þeim bjóðast, m.a. í erlendum verkefnum, eru mörg og spennandi. Um það geta þær stúlkur vitnað sem lagt hafa fyrir sig dómgæslu á Íslandi. KSÍ hefur líka áfram á sinni könnu að auka gæði dómgæslunnar almennt, í þeim efnum hefur reyndar verulegur árangur náðst á síðustu árum. Ekki síst er mikilvægt að KSÍ hafi fjárhagslega burði til þess að greiða þann kostnað sem óhjákvæmilegur er vegna dómgæslunnar þannig að sá hann falli ekki á félög sambandsins.

Jafnrétti – jafnræði
Jafnræði og jafnrétti er mikilvægt innan sem utan íþróttahreyfingarinnar. Mismunandi greiðslur til dómara, í samræmi við mismunandi álag í starfi, getur ekki með góðu móti flokkast undir jafnréttismál í venjubundnum skilningi þess orðs, hvort sem karlar eða konur eiga í hlut. Það er hins vegar gríðarlegt jafnréttis- og réttlætismál að félög á landsbyggðinni geti tekið þátt í íþróttum til jafns við félög á höfuðborgarsvæðinu.

Gríðarlegur ferðakostnaður kemur hins vegar í veg fyrir að allir sitji þar við sama borð. Þann aðstöðumun eru stjórnmálamennirnir okkar, konur jafnt sem karlar, ekki tilbúnir að jafna með framlögum í ferðasjóð ÍSÍ. Þá skal nefnt að íþróttahreyfingin, og þá ekki síst knattspyrnan, greiðir tekjuskatt og virðisaukaskatt í ríkissjóð og fær örugglega minna til baka frá ríkinu en sem nemur skattgreiðslunum. Þetta tvennt stendur undir nafni sem „hallærisfyrirkomulag“.

Ekki hefur fengist opinber fjárstuðningur til að greina efnahagsáhrif íþrótta á samfélagið með sama hætti og gert var varðandi skapandi menningargreinar. Það liggur því fyrir íþróttahreyfingunni sjálfri að láta meta þessi áhrif – og borga fyrir. Fæstir þeirra sem hæst láta gera sér grein fyrir því að íþróttahreyfingin er að stærstum hluta fjármögnuð með sjálfboðavinnu og framlögum velviljaðra fyrirtækja – en ekki ríkisins. Vissulega leggja sveitarfélög sitt að mörkum með byggingu og rekstri mannvirkja en ríkið situr hjá þótt fulltrúar þess njóti sviðsljóssins þegar vel gengur án þess að leggja það til sem verðskuldar þá birtu.

Gísli Gíslason,
fulltrúi í stjórn KSÍ.
Athugasemdir
banner
banner
banner