Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 07. maí 2021 20:00
Brynjar Ingi Erluson
Pepsi Max-deildin: KA skellti KR í Vesturbænum
Hallgrímur Mar skoraði tvö mörk og lagði upp eitt en Hrannar Björn, bróðir hans, lagði upp fyrsta mark leiksins
Hallgrímur Mar skoraði tvö mörk og lagði upp eitt en Hrannar Björn, bróðir hans, lagði upp fyrsta mark leiksins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR 1 - 3 KA
0-1 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('10 )
0-2 Brynjar Ingi Bjarnason ('28 )
1-2 Guðjón Baldvinsson ('45 )
1-3 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('78 )

KA gerði sér góða ferð til Reykjavíkur í dag en liðið vann KR 3-1 í Vesturbænum í 2. umferð Pepsi Max-deildar karla. Sigur Akureyringa var aldrei í hættu.

Lestu um leikinn hér

Bræðurnir Hrannar Björn og Hallgrímur Mar Steingrímssynir bjuggu til fyrsta markið á 10. mínútu. Brynjar Ingi Bjarnason átti langa sendingu út vinstra megin á Hrannar sem lagði boltann fyrir sig, kom honum á Hallgrím sem skoraði með laglegu skoti í stöng og inn.

Brynjar Ingi bætti við öðru marki á 28. mínútu. Hallgrímur Mar átti aukaspyrnu sem hann teiknaði á hausinn á Brynjari og inn í netið fór boltinn.

KA-menn sköpuðu sér mikið. Ásgeir Sigurgeirsson kom boltanum í netið á 40. mínútu en markið var dæmt af og stuttu síðar átti Brynjar Ingi skalla beint á Beiti Ólafsson í markinu.

Guðjón Baldvinsson tókst að minnka muninn fyrir heimamenn undir lok fyrri hálfleiks. Kristinn Jónsson átti fasta fyrirgjöf inn í teig á Guðjón sem skoraði.

Heimamenn komu ferskari inn í síðari hálfleikinn og fengu tvö hættuleg færi sem Atli og Guðjón náðu ekki að nýta sér.

Gestirnir gulltryggðu sigurinn á 78. mínútu en Hallgrímur Mar gerði annað mark sitt í leiknum. Daníel Hafsteinsson sendi þá boltann á Hallgrím sem hamraði boltann í fjærhornið.

3-1 sigur KA staðreynd. Liðið komið með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en KR-ingar með þrjú stig.
Athugasemdir
banner