„Þetta var mjög sterkur sigur því þær hafa reynst okkur erfiðar. Þær vinna okkur í Lengjubikar og í fyrri leiknum í deildinni og uppskriftin er alltaf svipuð. Við erum að reyna að biggja upp spil og brjóta þær en þær refsa okkur með hröðum sóknum. Þær eru bara líka góðar í því. Við eigum mjög slakan dag í fyrri hálfleik. Hvernig við náum að koma til baka og ná vopnum okkar í seinni, jafna og komast yfir og eftir að þær skora annað markið að ná að klára leikinn er mjög sterkt hjá okkur.“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir mjög sterkan 4-2 sigur á Þór/KA í dag.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 2 Þór/KA
Þú talar um það að þær hafa reynst ykkur illa í gegnum tíðina en hvar vannst leikurinn í dag, afhverju unnuð þið?
„Karakter og trú á því að við gætum komið til baka og skora fleiri mörk. Þær ná að skora tvö mörk á okkur engu að síður úr svipuðum atriðum. Með því að ná að skora fleiri og karakterinn og trúin á því að við getum gert það. Síðan nýtum við færin, upphlaupin og fyrirgjafirnar okkar betur, þannig vinnum við þetta.“
Hver er staðan á hópnum eftir leikinn í dag og fyrir bikarúrslitaleikinn á föstudaginn?
„Það verður bara að fá að komast í ljós. Það eru skörð. Við verðum bara að sjá hverjar jafna sig og hverjar verða heilar fyrir föstudaginn. Við eigum að geta haft góða viku eftir sigurinn í dag. Við þurfum að nota vikuna vel og sjá hverjar koma heilar í gegnum vikuna.“
Ásta fór meidd útaf af velli í dag og sást á hækjum eftir leikinn, veistu hvort það sé eitthvað alvarlegt eða ekki?
„Við vitum ekki nákvæmnlega. Það small í ilini á henni og við vitum ekki nákvæmlega.“
Hvernig finnst þér tímabilið hafa verið í sumar?
„Bara skemmtilegt. Þetta er hörkudeild. Allir geta náð í stig gegn öllum. Það er aldrei hægt að reikna með öruggum sigri og liðin eru bara góð og vel skipulögð. Deildin í ár hefur bara verið sterk og skemmtileg. Það er ekkert lið sem er miklu slakari en hin.“
Þú fékkst gult spjald á bekknum alveg í lokin eftir að hafa mótmælt einhverju við dómarann, hvað getur þú sagt mér um það?
„Það er kannski bara uppsafnaður pirringur. Mér fannst þær fá að sparka full oft í okkur og ýta okkur án þess að það væri dæmt. Þarna gerist þetta beint fyrir framan mig og ég vill fá brot og gult og dómarinn dæmir ekkert. Það fór illa í mig!“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, að lokum eftir sterkan 4-2 sigur á Þór/KA.