Bayern setur meiri kraft í viðræður við Musiala - Newcastle fylgist með Sane - Barcelona vill Kimmich
banner
   mið 07. ágúst 2024 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Man Utd setur sig í samband við Mónakó vegna Fofana
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
Sky Sports greinir frá því að Manchester United sé búið að setja sig í samband við AS Monaco varðandi kaup á miðjumanninum Youssouf Fofana.

Fofana er franskur landsliðsmaður og hefur AC Milan verið að reyna að kaupa hann í sumar en án árangurs. Ítalska félagið á ekki nægan pening til að nota í miðjumanninn, sem vill ólmur skipta um félag og er búinn að gefa munnlegt samþykki fyrir samningi við Milan.

Fofana er 25 ára gamall og aðeins með eitt ár eftir af samningi sínum við Monaco. Talið er að félagaskipti til Milan séu í forgangi hjá leikmanninum en hann gæti þó samþykkt að ganga til liðs við Man Utd ef Milan nær ekki samkomulagi við Monaco um kaupverð.

Rauðu djöflarnir eru í leit að nýjum miðjumanni til að styrkja byrjunarliðið og eru þeir að skoða ýmsa kosti víða um heim þar sem má nefna leikmenn á borð við Richard Rios, Sander Berge, Martin Zubimendi og Sofyan Amrabat, auk Manuel Ugarte.

Þá er félagið reiðubúið til að selja Scott McTominay en aðeins fyrir rétta upphæð. Man Utd hafnaði 20 milljónum punda frá Fulham á dögunum og segir Sky að Fulham sé hætt við kaupin. Félagið ætlar að snúa sér að öðrum skotmörkum, þar sem hinn brasilíski André er talinn vera ofarlega á lista.

Kobbie Mainoo, Casemiro, Christian Eriksen, Mason Mount og Bruno Fernandes eru miðjumenn Man Utd í dag auk McTominay, en hinir efnilegu Hannibal Mejbri og Daniel Gore eru einnig í leikmannahópinum.

Talið er að félagið sé reiðubúið til að selja eða lána út þrjá úr þessum átta manna hópi í sumar.
Athugasemdir
banner
banner