Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 07. september 2020 20:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Upplifði langþráðan draum eftir ferðalag frá Dalvík til Wolverhampton
Stuðningsmaður Wolves - Jónas Antonsson
Jónas á Molineux í fyrsta sinn í fyrra.
Jónas á Molineux í fyrsta sinn í fyrra.
Mynd: Úr einkasafni
Adama Traore.
Adama Traore.
Mynd: Getty Images
Fabio Silva í leik með Porto.
Fabio Silva í leik með Porto.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Úlfunum er spáð áttunda sætinu.

Jónas Antonsson, 71 árs sjómaður frá Dalvík á eftirlaunum, er dyggur stuðningsmaður Wolves. Hann svaraði nokkrum laufléttum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Wolves af því að... Ég kunni vel við þá þegar ég var um 10 ára og fannst nafnið skemmtilegt. Úlfarnir, það greip mig og ég hef haldið með þeim síðan.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Það var allt í lagi, ég átti von á að þeir færu ofar en var sæmilega sáttur. Ég er spenntur fyrir komandi tímabili, þeir eru búnir að kaupa tvo menn sem mér finnst spennandi en ég er ekki sáttur með að Doherty hafi verið seldur til Tottenham.

Hefur þú farið út til Englands að sjá liðið þitt spila? Já, elsta barnarbarnið mitt bauð mér á Molineux í september í fyrra þar sem ég varð sjötugur síðasta sumar. Ég hafði aldrei farið áður og lengi verið draumur að fara á völlinn og sjá þá spila. Við fórum á Wolves - Watford sem var fyrsti sigurleikur minna manna það tímabilið en þeir fóru ekki svo vel af stað.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Adama Traore.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Enginn sem kemur fljótlega upp í kollinn, það hlýtur að vera góðs viti.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Fabio Silva, ég hef fulla trú á að hann komi vel inn í deildina þrátt fyrir ungan aldur.

Ef þú mættir velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Virgil Van Dijk.

Ánægður með knattspyrnustjórann? Já, hann er skemmtilegur og góður.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og félaginu? Mér dettur það helst í hug þegar Baldvin dró mig með sér til Englands að sjá þá spila, ég hélt við ætluðum aldrei að komast á leiðarenda. Ferðalagið byrjaði auðvitað á Dalvík og tók ég eina nótt í Reykjavík. Við byrjuðum svo á að fljúga til London, hvorugur okkar hafði komið þangað áður og fórum við að reyna að fikra okkur í gegnum lestarkerfið þar, fundum leið í miðbæinn og einhverja stóra lestarstöð þar. Við fundum lest sem var á leið til Wolverhampton, en hún var óeðlilega lengi á leiðinni þar sem hún stoppaði í hverju einasta krummaskuði sem fannst þarna á milli en allt hafðist þetta að lokum og var það vel þess virði þegar upp var staðið enda fékk ég að sjá mína menn og eyða fúlgum fjár í Úlfabúðinni á vellinum. Ég man það næst að fljúga til Mancehster þar sem það er nær Wolverhampton og færri krummaskuð á leiðinni.

Wolves keypti Fabio Silva, 18 ára gamlan strák, á metfé fyrir stuttu. Hvernig líst þér á það? Vel, hef fulla trú á honum.

Í hvaða sæti mun Wolves enda á tímabilinu? Ég er að vona að við náum 3-4 sæti.
Athugasemdir
banner
banner