mið 07. október 2020 18:29
Brynjar Ingi Erluson
Óvænt úrslit í Andorra - U21 árs landsliðið gerði jafntefli við England
Iker Alvarez De Eulate, markvörður Andorra, er á mála hjá Villarreal
Iker Alvarez De Eulate, markvörður Andorra, er á mála hjá Villarreal
Mynd: Getty Images
Leikmenn Andorra fögnuðu vel og innilega
Leikmenn Andorra fögnuðu vel og innilega
Mynd: Getty Images
U21 árs landslið Andorra gerði 3-3 jafntefli við England í undankeppni Evrópumótsins í kvöld en þetta er líklega stærstu úrslit í sögu þjóðarinnar.

Andorra tefldi fyrst fram U21 árs landsliði árið 2006 og tók liðið þá þátt í undankeppni Evrópumótsins en fyrsti leikurinn var gegn Íslandi og endaði sá leikur með markalausu jafntefli, Ísland vann síðan síðari leikinn 2-0. Emil Hallfreðsson og Rúrik Gíslason skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Andorra tók ekki þátt í næstu undankeppni en mætti þó aftur til leiks fyrir Evrópumótið sem fór fram árið 2011. Liðið vann svo sinn fyrsta leik í undankeppni árið 2015 er liðið vann Litháen 1-0.

Liðið er nú í botnsæti í riðli 3 fyrir Evrópumótið sem fer fram á næsta ári en það er með fimm stig. Það óvænta við það er að liðið gerði 3-3 jafntefli við Englendinga í kvöld.

Ricard Fernandez kom Andorra yfir á 28. mínútu áður en Everton-maðurinn Tom Davies jafnaði undir lok fyrri hálfleiks. Joshua Da Silva kom Englendingum yfir á 69. mínútu en Fernandez jafnaði sjö mínútum síðar.

Eddie Nketiah, leikmaður Arsenal, sá um að koma Englendingum aftur yfir á 82. mínútu og héldu Englendingar að þeir hafi komist hjá því að vera niðurlægðir í Andorra en Christian Garcia var á öðru máli og jafnaði leikinn í uppbótartíma með laglegri vippu eftir slæm mistök í vörn enska liðsins og 3-3 jafntefli staðreynd.

Enska liðið tefldi fram leikmönnum á borð við Max Aarons, Dwight McNeil, Curtis Jones, Brandon Williams og Eberechi Eze en neyddust til að skipta þeim Callum Hudson-Odoi, Eddie Nketiah, Jude Bellingham og Ryan Sessegnon inn til að ná í úrslit en það skilaði sér ekki í sigri.

Englendingar eru þó áfram í efsta sæti riðilsins með 19 stig og á góðri leið með að tryggja sig áfram á Evrópumótið. Andorra er eins og áður segir í botnsætinu með 5 stig, með tvö jafntefli og einn sigur á bakinu.

Hér fyrir neðan má sjá öll helstu atvik úr leiknum.


Athugasemdir
banner
banner
banner