þri 07. desember 2021 09:05
Elvar Geir Magnússon
Milos fundar í Þrándheimi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milos Milojevic lenti í Þrándheimi í gær og eyddi kvöldinu í að funda með forráðamönnum Rosenborgar. Allt bendir til þess að Milos, sem er fyrrum þjálfari Víkings og Breiðabliks, sé að taka við þessu sigursælasta félagi Noregs.

Norskir fjölmiðlamenn voru mættir á flugvöllinn í Þrándheimi þegar Milos lenti í gær. Hann vildi ekkert tjá sig um Rosenborg en sagði að veðrið væri fallegt.

Rosenborg hefur verið í lægð undanfarin ár. Liðið er í fjórða sæti norsku úrvalsdeildarinnar þegar ein umferð er eftir af tímabilinu en í fyrra hafnaði liðið einmitt í fjórða sæti.

Kjetil Knutsen þjálfari Bodö/Glimt er sagður hafa verið fyrsti kosturinn hjá Rosenborg en hann hafnaði félaginu. Carl-Erik Torp, sérfræðingur NRK, segir það slæmar fréttir fyrir Rosenborg að Knutsen hafi gefið afsvar.

„Það sýnir að Rosenborg er ekki eins aðlaðandi og forráðamenn félagsins vilja og trúa að félagið sé," segir Torp en á árum áður gátu menn ekki sagt nei ef Rosenborg hafði samband.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner